Landslög hafa fyrir hönd Ingólfs Helgasonar sent kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna meintra brota gegn rétti hans til að velja sér verjanda. Ingólfur Helgason er fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og sætir ákæru fyrir meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik í starfi.
Frá þessu er greint á vefsvæði Landslaga. Þar segir að með dómi Hæstaréttar Íslands þann 25. febrúar 2014 hafi Hæstiréttur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að afturkalla skipun Jóhannesar Bjarna Björnssonar hrl, verjanda Ingólfs. Var afturköllunin studd þeim rökum að ekki væri útilokað að verjandinn yrði kvaddur til sem vitni í málin þar sem ákæruvaldið hafði lagt fram í málinu endurrit af hleruðu símtali milli verjandans og annars sakbornings í málinu.
Töldu íslenskir dómstólar rétt að afturkalla skipun verjandans á þessum grundvelli þrátt fyrir að ákæruvaldið hafi lýst því yfir að það hefði ekki í hyggju að leiða verjandann sem vitni í málinu, þó svo það vildi ekki útiloka að til þess gæti komið síðar.
Í kæru sinni til Mannréttindadómstóls Evrópu heldur Ingólfur því fram að íslenskir dómstólar hafi brotið gegn rétti hans sem sakaðs manns til að njóta varnar af hálfu verjanda að eigin vali. Réttur sakaðs manns að þessu leyti er talinn með grundvallar mannréttindum þeirra sem sæta ákærum samkvæmt c lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Ingólfur telur í kæru sinni að ákvörðun íslenskra dómsstóla að afturkalla skipun verjanda hans hafi verið röng að bæði efni og formi. Efnislega, að því leyti að verjandi hans hafi hvorki getað fallið undir hugtakið vitni skv. íslenskum lögum né sé heimilt að íslenskum lögum að kalla verjanda til sem vitni af hálfu ákæruvalds. Þá hafi niðurstaðan verið formlega röng þar sem lagaheimild bresti til að afturkalla skipun verjanda á þeim grundvelli sem gert var í dómi Hæstaréttar.