Meirihluti Íslendinga er andvígur aðild að Evrópusambandinu samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent gerði fyrir samtökin Já Ísland sem hlynnt eru aðild að sambandinu. Spurt var í skoðanakönnuninni hvernig aðspurðir myndu greiða atkvæði ef kosið yrði um aðild að ESB. 54,7% sögðu að þau myndu hafna aðild en 45,3% að þeir myndu styðja hana.
Greint var frá niðurstöðum skoðanakönnunarinnar á aðalfundi Já Ísland sem fram fór í dag. Samkvæmt henni er meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins (92%) og Sjálfstæðisflokksins (83%) andvígur aðild að ESB en meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar (89%), Bjartrar framtíðar (81%), Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs (55%) og Pírata (55%) hlynntir henni.
Skoðanakönnunin var gerð dagana 29. júlí – 10. ágúst 2014. Um var að ræða netkönnun meðal 1.500 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri sem voru handvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Þátttökuhlutfall var 54,6%.