Reynir viðbúinn því að hætta

Reynir Traustason kveðst viðbúinn því að hætta sem ritstjóri DV.
Reynir Traustason kveðst viðbúinn því að hætta sem ritstjóri DV. mbl.is/Ómar

Reynir Traustason kveðst viðbúinn því að láta af störfum sem ritstjóri DV. Í viðtali við mbl.is segist hann þó geta gengið stoltur frá borði ef sú verður raunin. Þetta skýrist allt nánar á aðalfundi DV í dag, sem hefst klukkan 15 á hótelinu Reykjavík Natura, en þar verður meðal annars kosin ný stjórn. Fundurinn átti að fara fram fyrir viku síðan en var frestað sökum ágrein­ing­s um árs­reikn­ing. 

„Ég verð að vera viðbúinn því að láta af störfum. Helstu óvinir DV hafa safnast saman í kringum Þorstein Guðnason, Björn Leifsson, Sigurður G. Guðjónsson og fleiri. Lífið er engu að síður fullt af fyrirheitum og það þýðir ekkert að leggjast í kör. Ég hef oft skipt um starf og komist ágætlega af í lífinu. Ég er þó auðvitað búinn að berjast fyrir því að það verði ekki af þessari fjandsamlegu yfirtöku sem að blasir við,“ segir hann. Reynir kveðst ennfremur getað borið höfuðið hátt ef svo fer.

„Ég er alveg gríðarlega stoltur af því sem við höfum gert á DV síðustu sjö árin. Ég væri svo sannarlega til í að fylgja fólki aðeins lengra inn í framtíðina, ég verð bara að bíða og sjá hvernig þetta fer allt saman. Maður gerði bara það sem maður gat og þetta fer eins og það fer,“ segir hann. Reynir segir þetta þó ekki eina máli á dagskrá.

„Það verður kosið um Eirík Jónsson og lagt fram lögfræðiálit um margháttuð lögbrot stjórnarformannsins fyrrverandi,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert