Flutningaskipið Akrafell, sem er í eigu Samskipa, strandaði á skeri við Vattarnes á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar á fimmta tímanum í morgun. Við strandið kom mikill leki að skipinu sem er 137 metra langt.
Allar björgunarsveitir á Austfjörðum voru kallaðar út og rúmum 20 mínútum eftir útkall voru fyrstu björgunarskipin komin á vettvang. Hópar björgunarmanna voru einnig sendir landleiðina á svæðið með fluglínutæki ef á þyrfti að halda. Þyrla Landhelgisgæslunnar var ræst og er rétt ókomin á staðinn. Vegna mengunarhættu hefur Slökkvilið Reyðarfjarðar einnig verið kallað út.
12 manns voru um borð í skipinu og hófu skipverjar þegar dælingu úr skipinu en þær höfðu ekki undan. Þegar þetta er skrifað er búið að flytja átta skipverja um borð í björgunarskip en björgunarsveitamenn eru farnir um borð með dælur og fleiri eru á leiðinni.