Ljóst er að Akrafellið var komið af siglingaleið er það strandaði við Vattarnes snemma í morgun. Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segir að ekki sé vitað hvað hafi gerst en það sé greinilegt að eitthvað hefur komið upp á.
Vakt er hjá Umhverfisstofnun vegna strands Akrafells við Vattarnes og aðgerðaráætlun Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslu Íslands og Samgöngustofu hefur verið virkjuð. Fulltrúi Umhverfisstofnunar og mengunarvarnarbúnaður er á leið á staðinn ef á þarf að halda. Á þessari stundu er einnig verið að draga út olíuvarnargirðingu í varúðarskyni. Engin merki eru um að olía leki frá skipinu.
Að sögn Pálmars er unnið að því að tryggja að ekki verði umhverfisstjón á strandstað og þegar það hefur verið gert hefjist vinna við að bjarga skipi og farmi þess. Það mun skýrast einhvern tíma eftir hádegið, þegar kafarar af varðskipinu Ægi hafa skoðað skipið, hvaða skref verða tekin næst við björgunina.
„Dráttartaug er komin í Akrafellið frá Aðalsteini Jónssyni og ef skipið losnar á flóðinu þá er hægt að draga það af strandstað til hafnar,“ segir Pálmar.
Hann segir að ekki sé vitað á þessari stundu hvað olli því að skipið strandaði á þessum stað en það verði rannsakað líkt og alltaf er gert þegar skip strandar. „Þá kemur það í ljós í sjóprófum hvað nákvæmlega hefur gerst. En það er komið af leið þannig að það hefur eitthvað komið upp á sem er óútskýrt,“ segir Pálmar, forstjóri Samskipa.
Akrafell strandaði undir Vattarnesskriðum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um fimmleytið í morgun. Leki kom þegar að skipinu.
Björgunarsveitir frá Austfjörðum komu á strandstað skömmu síðar og búið er að koma hluta úr áhöfninni frá borði ásamt því að björgunarsveitarmenn eru komnir um borð í skipið.
Í áhöfn skipsins eru 13 manns, frá Austur-Evrópu og Filippseyjum.
Akrafell er 500 gámaeininga skip sem bættist í flota Samskipa 2013. Skipið er byggt í Kína árið 2003. Skipið er í eigu Samskipasamstæðunnar.