Guðbrandur Örn Arnarson, verkefnastjóri aðgerðarmála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir að vel gangi að dæla sjó úr Akrafellinu og skipið sé stöðugt á skerinu þar sem það strandaði um fimmleytið í nótt.
Unnið er að áætlun um hvernig eigi að koma skipinu til hafnar og stendur til að fara í botnskoðun á skipinu á næstu fjöru sem er í kvöld en kafarar frá Landhelgisgæslunni eru komnir á strandstað til viðbótar við þá kafara sem voru þegar komnir til starfa í morgun, segir Guðbrandur.
„Það sem er mjög gott er að veðrið er að leika við okkur og það skiptir sköpum,“ segir Guðbrandur.
Engri olíu hefur verið tappað af skipinu og fylgist Umhverfisstofnun grannt með gangi mála á strandstað og hefur mengunarvarnarbúnaður verið settur upp. Engin merki eru um að olía leki frá skipinu sem strandaði við Vattarnes, á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.