„Bati og sigur á þeim sjúkdómi sem alkóhólismi er verður alltaf langhlaup. Framfarirnar eru þó miklar. Vísindaleg þekking lækna og annarra á einkennum sjúkdómsins verður æ meiri og slíkt skilar sér út í meðferðarstarfið sjálft, sem er í föstum skorðum en stöðugri þróun. Allir geta fengið hjálp og batahorfur eru góðar miðað við að um krónískan sjúkdóm sé að ræða. Persónuleg geta og félagslegur stuðningur eru mikilvægir þættir þegar horft er til árangurs af meðferðinni,“ segir Karl S. Gunnarsson, dagskrárstjóri SÁÁ á Staðarfelli í Dölum.
Á þessu ári munu nærri 400 karlar koma að Staðarfelli í áfengis- og vímuefnameðferð. Starfsemi SÁA í gamla húsmæðraskólanum á Fellsströndinni hófst árið 1980 og á þeim árum sem síðan eru liðin hafa um 12.400 sjúklingar verið innritaðir. Fyrstu 20 ár starfseminnar á Staðarfelli var meðferðin þar bæði fyrir karla og konur, en um aldamótin var sú breyting gerð að nú eru þar aðeins teknir inn karlar undir 55 ára aldri.
„Nei, ég get ekki sagt að sjúklingahópurinn hafi breyst að neinu marki síðustu árin, til dæmis að hingað komi menn sem eru verr á vegi staddir en áður. Hins vegar erum við oft að fá hingað mjög ungt fólk, oft niður í alveg 16-17 ára en annars má segja að hópurinn hér endurspegli allt litróf samfélagsins,“ segir Karl.
Gangurinn í starfsemi SÁÁ er sá að fólk sem hefur misst tök á neyslu sinni og þarf hjálp kemur fyrst á Vog. Meðferðin þar er 10 dagar og sé ástæða talin til tekur við framhaldsmeðferð á Staðarfelli. Hún er fyrir karla að 55 ára aldri, er fjórar vikur og á hverjum tíma eru 32 til 34 manns á staðnum.
Starfsmenn SÁÁ á Staðarfelli eru sjö talsins; dagskrárstjóri, fjórir ráðgjafar og tveir í eldhúsi. Og það er í mörg horn að líta því meðferð er engin hvíldarinnlögn. Mannskapurinn er ræstur klukkan 7.20 í hafragrautinn og þegar morgunmat sleppir tekur við þétt dagskrá með hópastarfi, fyrirlestrum, einkaviðtölum, verkefnavinnu og AA-fundum. Útivera, gönguferðir sem koma blóðinu á hreyfingu og skila súrefni í lungun eru einnig mikilvægur þáttur í endurhæfingunni. Þá sinna sjúklingar ýmsum húsverkum og því sem til fellur. Iðja er auðnu móðir og sú reglufesta sem verkum fylgir er hluti af bataferlinu.
„Staðsetningin er mikill kostur fyrir þessa starfsemi. Hér er langt í næsta þéttbýli og fátt í umhverfinu sem glepur. Hér hafa menn hvorki aðgang að neti, útvarpi né sjónvarpi og geta því einbeitt sér að því að ná bata,“ segir Karl sem kom til starfa hjá SÁÁ árið 2006. Hafði þá náð tökum á eigin alkóhólisma en í framhaldi af því aflaði hann sér menntunar í áfengisráðgjöf. Hefur frá því námi lauk starfað á ýmsum póstum SÁÁ, en veitt starfseminni á Staðarfelli forstöðu síðastliðin tvö ár.
Samkvæmt almennum viðmiðum eru sjúkdómsstig alkóhólisma þrjú. Hið fyrsta er að einstaklingur er í neyslu sem er að þróast til illviðráðalegs vandamáls, á öðru stigi er neyslan stjórnlítil og einstaklingurinn í félaglegum vanda. Á þriðja stiginu er viðkomandi í öngstræti og getur ekki sinnt skyldum sínum í daglegu lífi.
„Á Íslandi er vel staðið að meðferðarstarfi og inngripið getur komið fljótt. Það dugar samt ekki alltaf,“ segir Karl sem áætlar að þriðjungur Staðfellinga sé endurkomumenn, sem hafi verið áður þar og á Vogi. Meðferð þeirra er með sama hætti og þeirra sem koma í fyrsta sinn, nema hvað þeir fá þéttara utanumhald og eftirfylgd á göngudeild í eitt ár að lokinni meðferð.
„Okkar skilaboð til þeirra manna sem hingað eru að koma í annað eða þriðja sinn eru samt alveg skýr: að endurkoma er aldrei tapleikur. Sumt tekst í fyrstu lotu en stundum þarf að reyna aftur. Auðvitað er margt í svona vinnu sem tekur á og snertir mann. Maður þarf því líka að hugsa um eigin líðan og eiga líf utan vinnunnar til að brenna ekki upp. En sé það í lagi er þetta starf – þar sem maður sér svo marga góða hluti gerast – afskaplega gefandi,“ segir Karl S. Gunnarsson að síðustu.
Þau Þóra og Sveinn Gestsson, eiginmaður hennar, hafa lengi búið á Staðarfelli. Staðurinn hefur sess í sögunni og lungann úr 20. öldinni og allt fram til 1975 var þar starfræktur húsmæðraskóli. „Dalamenn vildu að hér yrði einhver starfsemi áfram og við vorum heppin að fá SÁÁ hingað,“ segir Þóra sem hleypur undir bagga og grípur í sitt gamla starf þegar svo ber undir og þarf. Margt þarf að gera á stóru heimili.
„Boðskapurinn í meðferðarstarfinu er mannbætandi fyrir alla, mikilvæg atriði eins og að tileinka sér jákvæð viðhorf í lífinu og mæta öllum áskorunum af æðruleysi. Gefast ekki upp og muna að þó að hlutirnir gangi ekki upp þá kemur alltaf nýr dagur. Allt er þetta annars spurning um viðhorf og þjálfun; það að vera í áfengismeðferð er stíf vinna.“
Þegar litið er til baka segir Þóra að eðlilega renni margt saman í eitt í hugskoti sínu. „Jú, maður man vissulega eftir sumum sem hér hafa dvalist. Annars er það nú svo að þegar fólk hættir drykkju eða neyslu þá breytist svipur þess, sumt virðist hreinlega yngjast upp um tíu ár að sjá. Þetta hef ég séð svo oft,“ segir Þóra sem með sóma ber þann titil að vera matmóðir íslenskra alkóhólista.