Hefur áhyggjur af börnum í leiguíbúðum

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af aðstæðum barna í fjölskyldum sem …
Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af aðstæðum barna í fjölskyldum sem búa á leigumarkaði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af aðstæðum barna í fjölskyldum sem búa á leigumarkaði. Skortur sé á leiguhúsnæði og öryggi leigjenda yfirleitt ekki mikið. Þessar aðstæður geti haft neikvæð áhrif á börn. Telur umboðsmaður brýnt að bæta húsnæðismálin hér á landi.

Þetta kemur fram í svari umboðsmanns til Samtaka leigjenda. Þar segir meðal annars: „Ljóst er að margir hafa ekki tök á því að kaupa húsnæði eða hafa jafnvel misst húsnæði sitt vegna fjárhagsvanda. Vegna skorts á leiguhúsnæði er leiguverð víða það hátt að erfitt er fyrir fjölskyldur að ráða við kostnaðinn. Eru því einhver dæmi um að fólk búi við aðstæður sem geta ekki talist viðunandi og stefna jafnvel heilsu barna í hættu.“

Þá segir umboðsmaður mörg dæmi um að fólk á leigumarkaði þurfi ítrekað að flytja milli hverfa eða sveitarfélaga en slíkt geti haft verulega neikvæð áhrif á líðan og velferð barna, sem þurfi þá að skipta oft um skóla og missi tengsl við vini. „Umboðsmaður barna telur brýnt að bæta húsnæðismálin hér á landi, meðal annars með því að styrkja stöðu foreldra á leigumarkaði. Yfirvöldum ber að setja hagsmuni barna í forgang og sjá til þess öll börn og fjölskyldur þeirra hafi tök á því að búa við aðstæður þar sem öryggi, stöðugleiki og velferð þeirra eru tryggð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert