Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var harðlega gagnrýnt í ræðu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í kvöld í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu ættu að fela í sér einföldun en í raun væru breytingarnar þær að virðisaukaskattþrepum væri fækkað úr tveimur í tvö. Fækkunin væri engin.
Mikilla þverstæðna gætti ennfremur í frumvarpinu. Lækkun virðisaukaskatts á matvæli hefði verið aðför að lágtekjufólki árið 2011 að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. En annað væri greinilega uppi á teningnum í dag. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra færi um landið og segði nauðsynlegt að sem flestir gætu lesið sér til gagns. Því væri Katrín sammála en á sama tíma væri virðisaukaskattur á bækur hækkaður. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra væri áhugamaður um lýðheilsu og forvarnir. Á sama tíma væri virðisaukaskattur á matvæli hækkaður og sykurskattur lagður niður.
Hinn venjulegi maður getur haft áhrif
Katrín sagði að þegar rætt væri um ráðherra ríkisstjórnarinnar minnti það á bókina um góða dátan Svejk. „Okkur líður nefnilega oft öllum eins og Svejk þegar við stöndum andspænis kerfi sem stundum virðist hafa þann eina tilgang að viðhalda sjálfu sér. Þá líður hinum venjulega manni iðulega eins og hálfvita eða utangarðsmanni þegar það er í raun valdakerfið sem er truflað en hann í góðu lagi.“ Stundum virtist hinn venjulegi maður mega sín lítils en samt getur hann haft áhrif eins og bókin um Góði dátinn Svejk sem meðal annars hefði breytt viðhorfi fólks til styrjalda og orsaka þeirra.
„Því miður tel ég breytingar ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu dæmi um skammtímahugsun. Rétt eins og svokölluð skuldaleiðrétting sem hæstvirtur forsætisráðherra nefndi er dæmi um skammtímahugsun sem mun ekki hafa í för með sér langtímabata fyrir kjör almennings í landinu. Skammtímahugsun var allsráðandi á Íslandi fyrir hrun og kannski er það einkenni stjórnmála um heim allan að það er freistandi fyrir okkur öll að hugsa í kjörtímabilum en ekki í áratugum,“ sagði Katrín ennfremur og bætti við:
„Lengi má fela eigin stefnu með nýsköpun í orðanotkun en undir niðri glittir í gamla stefnu, þá dólgafrjálshyggju sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur fast í þó að hún hafi beðið skipbrot fyrir örfáum árum. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að almenningur í landinu veiti valdhöfum aðhald og við á vinstri væng stjórnmálanna megum ekki láta okkar eftir liggja. Baráttan snýst um heildarhagsmuni í stað sérhagsmuna og okkar erindi er að tryggja jöfnuð, sjálfbærni og uppbyggingu, fyrir okkur öll.“