Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur sett hag heimilanna í forgrunn, með markvissum aðgerðum til að auka ráðstöfunartekjur þeirra. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.
Bjarni sagði að samanlögð áhrif skattalækkana á árunum 2014 og 2015, ásamt hækkun bóta og lækkun húsnæðisskulda skili einstaklingum um 40 milljörðum króna í hærri ráðstöfunartekjur miðað við árið 2013. „Þessir fjörutíu milljarðar samsvara um 5% aukningu frá ráðstöfunartekjum eins og þær voru þegar vinstri stjórnin fór frá.“
Hann fór yfir breytingarnar á skattkerfinu sem kynntar voru í fjárlagafrumvarpinu. „Heildaráhrif breytinganna eru til lækkunar. Efra þrep virðisaukaskattsins verður lægra en nokkru sinni fyrr, 24%, og lækkar úr 25,5. Neðra þrepið, sem fram til ársins 2007 var 14%, hækkar um fimm prósentustig, úr 7 í 12. Heildarhækkun matvöruverðs nemur þó ekki 5% vegna mótvægisáhrifa vörugjaldaafnámsins.
Ástæðan er sú að vörugjaldið sem leggst á alla sykraða matvöru og vöru með sætuefnum, hækkar verð á ýmsum algengum vörutegundum. Þannig bera til dæmis ýmsar mjólkurvörur sykurgjald. Lækkunaráhrif afnáms vörugjaldsins draga úr hækkun á matvöruverði. [...] Það verður því ekki fimm eins og hækkun virðisaukaskattsins gæti gefið til kynna, heldur milli tvö og hálft og 3%. En þar verður ekki látið við sitja - aðrar aðgerðir munu jafna þá hækkun út.“
Þá sagði Bjarni að með afnámi vörugjalda samhliða breytingum á virðisaukaskattinum og hækkun barnabóta um 13% séu heildaráhrifin þau fyrir einstaklinga og fjölskyldur að ráðstöfunartekjur hækka um 0,5% og verðlag lækkar um 0,2% vegna áhrifa á vísitölu neysluverðs. Það sé ekki síst mikilvægt fyrir þau heimili sem skuldi verðtryggð lán.
Bjarni sagði það að afnema höft af íslensku efnahagslífi eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar á næstu misserum, ásamt því að treysta betur umgjörð efnahagslífsins til að búa í haginn fyrir arðbærar fjárfestingar í atvinnulífinu. Það sé sú aukna verðmætasköpun sem Íslendingar þurfi á að halda til að bæta lífskjör og styrkja velferðarkerfið.
„Hagtölur bera aukinni hagsæld vitni. Hærra atvinnustig, vaxandi atvinnuvegafjárfesting, stöðugleiki í verðlagi og hagvöxtur sem samanburðarríki okkar renna öfundaraugum til, er rammi ríkisfjármálaáætlunar næstu ára,“ sagði Bjarni og einnig benti hann á að jafnvægi hafi náðst í ríkisfjármálunum, skuldasöfnun ríkissjóðs hafi verið stöðvuð og á næstu árum haldi skuldir áfram að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu.
Ennfremur sé verðbólga sögulega lág og hafi samfellt verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands meirihluta ársins 2014. „Þá fara lánskjör ríkisins batnandi, eins og skuldabréfaútgáfa á Evrópumarkaði á miðju ári ber vitni um. Atvinnuleysi er minnkandi, ráðstöfunartekjur einstaklinga hafa hækkað og spáð er góðum hagvexti á næstu árum.“
Að lokum sagði hann að með hallalausum fjárlögum og aðhaldi í rekstri, skattalækkunum og öðrum aðgerðum sem skili sér í auknum ráðstöfunartekjum almennings og lækkun á verðlagi ásamt auknum framlögum í bóta- og styrkjakerfið hafi ríkisstjórnin markað leiðina í rétta átt, þjóðinni til heilla.