Sjónvarpsrásinni verður ekki lokað

iSTV
iSTV

„Sú staða sem stöðin er í er algjörlega þeim að kenna. Það hafði enginn í stjórninni eða aðrir hluthafar en þeir hugmynd um þá samninga sem þeir höfðu verið að gera. Þeir reyndu í raun að breyta stefnumörkun á rekstri stöðvarinnar,“ segir Þorsteinn Steingrímsson, stjórnarformaður iSTV, um fram­kvæmda­stjóra, markaðsstjóra og dag­skrár­stjóra sjón­varps­stöðvar­inn­ar, þá Jón E. Árnason, Björn T. Hauks­son og Guðmund Tý Þórarinsson.

Í gær birtist á fésbókarsíðu stöðvarinnar færsla, kvittuð undir af starfsfólki iSTV, þar sem kveðið var á um að þrímenningarnir hafi hætt sökum trúnaðarbrests og samstarfsörðugleika við stjórn og aðaleigendur sjónvarpsstöðvarinnar.

Stöðinni verður ekki lokað á næstunni

Þorsteinn segir erfitt að segja nákvæmlega til um það hver það var sem setti færsluna inn á síðuna en að hann gruni sterklega að um einn af þrímenningunum hafi verið að ræða.

„Ég fékk nú aldrei skilgreiningu á því hvaða starfsmenn það voru sem áttu að hafa sett þetta inn á síðuna en ég geri ráð fyrir því að þetta hafi verið þeir. Þetta kemur nokkuð flatt upp á þar sem að þeir eru fyrst og fremst hluthafar stöðvarinnar, ekki almennir starfsmenn, eins og kvittað var undir færsluna,“ segir Þorsteinn. Hann kveður að stöðin sé vissulega í fjárhagsörðuleikum en segir hana þó ekki í þann mund að loka.

„Það hefur ekki lengi bólað á þessum fjárhagsörðugleikum. Þessar skuldbindingar hluthafanna sem um ræðir komu alveg flatt upp á mig sem stjórnarformann stöðvarinnar. Stöðinni hefur ekki verið lokað. Þessir hluthafar eru einfaldlega bara farnir. Það koma að öllum líkindum nýir hluthafar inn í þeirra stað. Það verður þó bara að koma í ljós, maður er ekki alveg búinn að skoða það,“ segir hann.

Gerðu samninga í leyfisleysi

Þorsteinn gefur lítið fyrir þá samstarfsörðugleika sem þrímenningarnir segjast eiga við stjórn og aðaleigendur sjónvarpsstöðvarinnar.

„Þessir samstarfsörðugleikar og trúnaðarbrestir sem þeir nefna, ætli þeir séu ekki bara að tala um það að hafa ekki getað stýrt stöðinni sjálfir eins og þeir vildu, skuldsett hana eins og þeir vildu og fá síðan aðra til að borga brúsann,“ segir hann. Þorsteinn segir jafnframt þáttargerðarfólk stöðvarinnar í misjafnri stöðu þar sem um verktaka í mismunandi aðstæðum sé að ræða.

„Sumir hafa unnið þættina í samvinnu við stöðina, aðrir hafa átt þessa þætti tilbúna. Staða þeirra er því misjöfn. Það þarf bara að vinda ofan af þessum samningum sem þessir hluthafar, sem gáfu út þessa yfirlýsingu, gerðu við þetta fólk í algjöru leyfisleysi og trássi við vilja og stefnumörkun stöðvarinnar,“ segir Þorsteinn. Hann kveðst jafnframt nokkuð bjartsýnn á framhald stöðvarinnar. 

„Það getur vel verið að stöðin fari einhvern tímann í gjaldþrot en það verður þá ekki nærri því strax. Ef það tekst að vinna úr þessari stöðu, sem er ekkert rosalega flókin eða erfið, aðal erfiðleikarnir voru þeir að þessir hluthafar voru með aðra sýn á rekstur stöðvarinnar en þeir sem héldu á peningamálunum, þá ætti stöðin að lifa áfram,“ segir hann. 

Guðmundur Týr Þórarinsson, fráfarandi dag­skrár­stjóri iSTV.
Guðmundur Týr Þórarinsson, fráfarandi dag­skrár­stjóri iSTV. Valdís Þórðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert