„Við eigum betra skilið“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í kvöld.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í kvöld. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ríkisstjórn ríka fólksins sér sem fyrr um sína. Það verður æ ljósara. Verkefnið er að koma henni frá og knýja fram stjórnarstefnu í þágu þjóðarinnar allrar. Við eigum betra skilið,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

Árni sagðist hafa kynnst því í fyrra að ákveðin verkaskipting ríki hjá ríkisstjórninni. „Forsætisráðherra sér um að halda fallegar ræður sem vel hljóma, eins og þá sem nú var flutt, en sannleikurinn um stjórnarstefnuna birtist í fjárlagafrumvarpinu. Og þar kveður að venju við allt annan tón.“

Hann sagði allt svigrúm í ríkisrekstri nýtt í þágu þeirra sem best standi. „ Ríkisstjórn ríka fólksins barðist á hæl og hnakka síðasta vetur við að létta sanngjörnum veiðigjöldum af stórútgerðinni sem þó skilar metafkomu. Skattbyrði hefur skipulega verið flutt af allra tekjuhæstu einstaklingunum yfir á meðaltekjufólk og lágtekjufólk. Allir nefskattar hafa verið hækkaðir, þar sem lífeyrisþegar, launafólk og auðmenn greiða jafnt.“

Þá sagði Árni að það væri nýmæli í fjárlagafrumvarpi að hækka hollan mat en gera óhollustu ódýrari. „Samfylkingin styður afnám vörugjalda. En það er engin ástæða til að leggja álögur á lífsnauðsynjar til að fjármagna þá tilfærslu. Um það getur aldrei orðið sátt eða friður. Matur er dýrari hér en víðast hvar annars staðar og það getur ekki verið forgangsverkefni að gera hann enn dýrari. Við munum ekki styðja þessa hækkun skatts á mat og menningu.“

Fleiri sjá ekki framtíð á Íslandi

Árni Páll nefndi einnig Evrópusambandið og aðild Íslendinga að sambandinu. „Sífellt fleiri sjá ekki framtíð í þessu landi. Og því mikilvægasta má ekki gleyma: Fyrir hrun vorum við með laun á við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum. Í dag erum við hálfdrættingar á við þau. [...] Umsókn Íslands að Evrópusambandinu gaf þjóðinni mikilvægt skjól til þess að fást við hrunið og það hefði verið skynsamlegt að halda áfram að vinna með Evrópuþjóðum að lausnum á gjaldeyrisvanda okkar. Við eigum samleið með Evrópuþjóðum jafnt í efnahags- og öryggismálum.“

Hann sagði núverandi ríkisstjórn hafa klúðrað öllum þeim tækifærum sem aðildarumsóknin veitti Íslendingum. „Hjá henni virðist enn sem fyrr skipta mestu að tryggja aðstöðu þeirra forréttindahópa sem að baki hennar standa: Þeirra sem vilja verja sig samkeppni erlendis frá og eiga kvótann sinn í friði um alla eilífð og tryggja að Ísland verði áfram láglaunaland með haftakrónu og hæstu vexti í Evrópu.“

Þá sagði hann að í málaskrá ríkisstjórnarinnar sé rakið að tillaga verði á þessu þingi lögð fram um að afturkalla aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. „En hún heykist á því að segja okkur hvernig eða með hvaða hætti, minnug þess að þjóðin gerði hana afturreka með síðustu tilraun í þessu efni. Við þurfum aftur að standa saman gegn slíkri atlögu að sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar.“

Ennfremur sagði Árni Páll Íslendinga geta komist út úr vaxtaokri og efnahagslegri einangrun með aðild að Evrópusambandinu. „Við getum gefið metnaðarfullum vaxandi fyrirtækjum trú á framtíð á Ísland. Við getum gefið fólki fyrirheit um gott samfélag, þar sem hlúð er að barnafjölskyldum og þar sem húsnæði er í boði á viðráðanlegum kjörum til kaups eða leigu Samfélag þar sem við tökum hvert undir með öðru, öllum eru tryggð tækifæri og fólk getur óhrætt mætt áföllum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert