ÁTVR verði Tóbaksverslun ríkisins

mbl.is/Heiddi

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram lagafrumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Verði frumvarpið að lögum mun nafn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins breytast í Tóbaksverslun ríkisins, TVR.

Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki frjáls. Þrettán þingmenn allra flokka nema Samfylkingarinnar og VG standa að frumvarpinu.

Ekki er lagt til að ráðist verði í heildarendurskoðun á lagaumhverfi áfengis- og tóbaksmála. Af þeim sökum felur fyrsti kafli frumvarpsins aðeins í sér þá breytingu að ekki verði lengur kveðið á um einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis, að því er fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.

Þá er lögð til heimild til þess að innheimta 50.000 kr. gjald vegna útgáfu leyfis til smásölu á áfengi.

Þá kemur fram, að handhafa smásöluleyfis sé heimilt að selja eða afhenda áfengi til neytenda eldri en 20 ára. Með neytendum í þessum skilningi sé vísað til þeirra sem hingað til hafa keypt áfengi í vínbúðum ÁTVR en t.d. ekki þeirra sem t.d. kaupa áfengi af þeim sem hafa leyfi til heildsölu á áfengi skv. 9. gr. áfengislaga.

Einnig er gert ráð fyrir að hnykkt verði á því með jákvæðum hætti að útsöluverð á áfengi, þ.e. smásöluverð, sé frjálst.

Einnig verði þar kveðið sérstaklega á um að óheimilt sé að selja áfengi undir kostnaðarverði og að með kostnaðarverði sé átt við endanlegt innkaupsverð að viðbættum opinberum gjöldum auk virðisaukaskatts.

Eins og fram hefur komið er tilgangur þessa einkum sá að tryggja tekjuöflun ríkissjóðs með áfengisgjaldi auk þess sem ákvæðið er talið koma í veg fyrir að verslunarmenn sjái sér hag í því að niðurgreiða áfengi til þess að efla aðra þætti verslunar sinnar.

Tekið er fram að afgreiðslutími skuli ekki vera lengri en frá kl. 9.00 að morgni til kl. 20.00 að kvöldi. Með því er ekki átt við að versluninni þurfi að loka að öllu leyti kl. 20.00 heldur aðeins að ekki skuli afgreiða áfengi eftir þann tíma.

Einnig er lagt til að sveitarstjórnum veitt heimild til að kveða á um skemmri afgreiðslutíma.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert