Leitin að næsta besta pedalanum

Í litlu húsi á Flateyri framleiðir Ásgeir H. Þrastarson hljóðmaður gítarpedala, eða gítareffekta, sem hann selur til gítar- og bassaleikara út um allan heim í gegnum vefsíðuna www.pedalprojects.com. Fyrstu pedalana smíðaði Ásgeir meðfram námi í hljóðmennsku við Alchemea-háskólann í Lundúnum en fikt varð að fyrirtæki þegar hann prófaði að selja pedalana á ebay með góðum árangri. En þá vaknar spurningin: hvað eru gítarpedalar?

„Þetta eru lítil málmbox sem innihalda rafrás sem þú notar til að breyta hljómnum í gítarnum. Þetta er mjög einfalt og það nota þetta næstum allir gítarleikarar og bassaleikarar; þeir tengja bara gítarinn í boxið, snúa einhverjum tökkum og kveikja og slökkva með því að stíga á takka. Og það sem er í boði er jafn fjölbreytilegt og stærðirnar og útlitið,“ útskýrir Ásgeir en hann segir velgengni sína m.a. mega rekja til þess að gítarleikarar séu alltaf á höttunum eftir næsta besta pedalanum.

Ákváðu strax að snúa heim

Ásgeir er fæddur og uppalinn á Ísafirði en kærasta hans, Hrefna Erlinda Valdemarsdóttir, á ættir sínar að rekja til Flateyrar. Að sögn Ásgeirs lá beint við að flytja aftur í sveitasæluna heima á Íslandi eftir að hann lauk hljóðmennskunáminu 2012 en þá var Hrefna nýútskrifuð úr þrívíddarteiknimyndagerð frá SAE í Lundúnum.

„Við ákváðum það bara eftir að hafa verið úti í smá tíma að við myndum ekki vera lengur. Við sáum ekki fram á að við hefðum efni á því og vorum ekki beint með nein atvinnutækifæri í höndunum. Það hefði kannski ekki verið mikið mál fyrir mig að fá vinnu en þá hefði hún verið illa borguð því það er erfitt að komast inn í bransann,“ segir Ásgeir.

Hann segir námið hafa verið mjög skemmtilegt en það skiptist í tvo hluta, þar sem hann lærði stúdíóupptökur í níu mánuði og tónleikaupptökur í fjóra mánuði. „Þetta var ógeðslega gaman. Maður kynntist alls konar fólki, skemmtilegu fólki, og svo þegar ég fór í tónleikapakkann var maður alltaf á tónleikum og að vinna með tónlistarfólki,“ segir Ásgeir en meðal kennara hans var fyrrverandi hljóðmaður Johnny Cash, sem vinnur nú með Tori Amos.

Árangursríkt fikt

Þegar Ásgeir byrjaði að fikra sig áfram í pedalasmíðunum fékk hann örlitla leiðsögn frá einum kennara skólans en að öðru leyti var um tilraunastarfsemi að ræða. „Ég var aðeins búinn að plana þetta þegar við fluttum út, mig langaði að prófa bara að smíða einn effekt fyrir sjálfan mig; bara prófa hvort ég gæti það,“ segir Ásgeir, sem hefur leikið á gítar frá því hann fermdist. „Þetta var svolítil áskorun en svo bara eftir að hafa klárað hann – hann virkaði – þá fylltist maður ánægju að hafa smíðað eitthvað sem maður hélt að maður gæti ekki smíðað. Og þá fór ég að kaupa meira af hlutum í þetta og prófaði að selja á ebay.“

Hefur nokkra sérstöðu

Ásgeir segir að um 99% kaupenda pedalanna séu erlendir tónlistarmenn, flestir einstaklingar sem kaupa gegnum vefsíðuna en hann selur einnig til þriggja verslana í Bandaríkjunum og Singapúr. Fyrst var eingöngu um sérpantanir að ræða en nú framleiðir hann allt að 20 stykki í einu; sker út boxin, málar og tengir rafrásirnar. Hann segist varla anna eftirspurn og vonast til að geta ráðið starfsmann næsta vor.

„Allt sem ég framleiði núna get ég selt, þannig að um leið og ég get framleitt meira get ég selt meira. Markaðurinn er það stór,“ segir Ásgeir, en hann hafi skapað sér nokkra sérstöðu með því að vinna allt í höndunum og það í smábæ á Íslandi. Hann segir gott orð fara af framleiðslunni, sem muni hjálpa til við að koma vörunni inn hjá smásöluaðilum erlendis, en þrátt fyrir að vera duglegur að auglýsa sig á Facebook og Instagram þakkar hann velgengnina góðum umsögnum.

„Þetta er rosalega mikið þannig að einn verslar og segir vinum sínum frá, þeir versla og segja vinum sínum frá, og svo þróast þetta áfram einhvern veginn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert