Akrafell, flutningaskip Samskipa sem strandaði við Vattarnes í liðinni viku, hefur verið bundið við bryggju á Eskifirði undanfarna daga þar sem unnið hefur verið við að þétta skipið og koma í veg fyrir frekara tjón og fyrirbyggja mengun.
Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segir í Morgunblaðinu í dag, að áætlað sé að draga skipið að Mjóeyri við Reyðarfjörð þar sem farmurinn verður losaður og skemmdir á skipinu metnar.
„Á þessari stundu er ekki ljóst hvað tjónið er mikið. Við stefnum á að losa farminn þegar skipið er komið að Mjóeyri og þá ætti að gefast færi á að meta tjónið betur,“ segir Pálmar, sem telur ólíklegt að hægt verði að gera við skipið á Íslandi.