Þungar ásakanir koma fram í garð embættis sérstaks saksóknara og ríkissaksóknara í viðtali Fréttablaðsins í dag við Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumann hjá embættinu sérstaks saksóknara. Þar segir hann embættið meðal annars hafa hlerað með ólögmætum hætti símtöl verjenda við skjólstæðinga sína og spilað þau í húsakynnum þess þannig að allir viðstaddir hafi getað heyrt þau. Stemningin í kringum það hafi verið eins og hjá krökkum í sælgætisbúð.
Jón Óttar segist hafa upplýst Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara um þetta verklag í geinargerð árið 2012 en embætti hennar hafi hins vegar ekkert gert með þær upplýsingar. Þrátt fyrir það hafi ríkissaksóknari sagt að hún hafi ekki haft vitneskju um þetta fyrr en í fyrra. Þá hafi að þessi mál verið að hennar mati fyrnd. Það hafi þau hins vegar ekki verið 2012. Þegar ekkert hafi verið aðhafst af hálfu ríkissaksóknar hafi hann látið verjendur umræddra skjólstæðinga vita af þessum vinnubrögðum. Ljóst sé að kerfið verji sig sjálft.
Sérstakt andrúmsloft ríkir hjá embætti sérstaks saksóknara að sögn Jón Óttars sem byggist á hugsuninni „við á móti hinum“. Hann hafi ekki áttað sig almennilega á þessu á meðan hann hafi starfað hjá embættinu. Segist hann hafa verið fórnarlamb þessa brenglaða hugarfars rétt eins og aðrir starfsmenn embættisins. Ýmsar grímur hafi farið að falla á hann á meðan hann hafi starfað þar. Til að mynda vorið 2011 þegar öllum rannsakendum hjá sérstökum saksóknara hafi verið stefnt saman til þess að koma sér saman um það hvað væru umboðssvik. Sú spurning hafi eðlilega vaknað í kjölfarið hjá sér hvernig bankamenn hafi átt að vita hvað umboðssvik væru 2008 ef lögreglan vissi það ekki 2011.
Starfslokin urðu í kjölfar þess að sérstakur saksóknari kærði Jón Óttar fyrir að hafa starfað fyrir þrotabú Milestone á sama tíma og hann hafi starfað fyrir sérstakan saksóknara. Hann segir embættið hafa gert það gegn betri vitund enda hefði síðan verið staðfest að hann væri saklaus. Það hefði hins vegar verið rosalegt að vera sakaður um verknað sem varðaði margra ára fangelsi af fyrrum samstarfsmönnum sem þeir hafi vitað að ætti ekki við rök að styðjast.
Lýsir hann einnig nánu samstarfi á milli embættis sérstaks samsóknara og Fjármálaeftirlitsins sem hafi að hans mati gengið svo langt að starfsmenn þess fyrrnefnda hafi leiðbeint starfsmönnum eftirlitsins við að útbúa kærur til smbættis sérstaks saksóknara. Hann segist að lokum vona að hægt verði að gera bankahrunið upp með yfirvegaðri hætti. Of mikill þrýstingur hafi verið á starfsmenn sérstaks saksóknara að ná fram sakfellingum. Það hafi haft óeðlilegt áhrif á starfsmenn embættisins.