Rannsókn lögreglunnar á Eskifirði á strandi Akrafells lauk í síðustu viku og var yfirstýrimaður flutningaskipsins ákærður fyrir siglingalagabrot. Hann mætti fyrir dómara á föstudag og lauk málinu með viðurlagaákvörðun, en maðurinn samþykkti að greiða 700.000 krónur í sekt.
Akrafell strandaði við Vattarnes 6. september sl. eftir að yfirstýrimaðurinn, sem er erlendur, sofnaði í brúnni. Hann var ákærður fyrir brot gegn 238. gr. siglingalaga.
Jónas Wilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, segir í samtali við mbl.is, að málinu sé nú lokið af hálfu lögreglunnar. Aðspurður segir Jónas að engin mengun hafi orðið vegna strandsins en það sé hins vegar ljóst að Akrafell er verulega laskað og óvíst hvort það sigli aftur.
Ekki liggur fyrir hvort yfirstýrimaður sé farinn úr landi en hann er búinn að leggja fram tryggingu vegna sektarinnar.
Málið er nú hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa sem mun rannsaka málið frekar, en nefndin hefur þegar óskað eftir að fá aðgang að gögnum lögreglu.
Allur farmur sem var um borð í Akrafelli var losaður um helgina. Ekki liggur fyrir hvort farmurinn hafi skemmst en farmeigendur hafa óskað eftir því að fá að skoða farminn. Samskip hefur verið fram á að farmeigendur leggi fram tryggingu svo hægt verði að afhenda farminn sem fyrst.
Akrafell er nú bundið við bryggju á Búðareyri í Reyðarfirði. Annað skip hefur verið leigt í stað Akrafells og mun það sigla austur í kvöld en það verður komið til Reyðarfjarðar á föstudag. Stefnt er að því að það muni sigla til Færeyja á föstudagskvöld. Þaðan mun það síðan sigla áfram til Evrópu.
Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segir í samtali við mbl.is, að á laugardag hafi menn náð að ljúka við að afferma skipið. Hann segir að farmeigendur hafi óskað eftir því að fá að skoða farminn til að fá það staðfest að hann sé í lagi áður en tekinn verði ákvörðun um að senda hann áfram. Akrafell var með ýmiskonar varning um borð, m.a. frosið sjávarfang. Ekki liggur fyrir hversu margir voru með farm um borð í flutningaskipinu.
Aðspurður segir Pálmar, að annað flutningaskip muni sigla frá Reykjavík í kvöld. „Það siglir norður fyrir ströndina og verður á Reyðarfirði á föstudaginn,“ segir Pálmar og bætir við að það muni fara inn á áætlun Akrafells. Skipið siglir frá Reyðarfirði til Færeyja og þaðan siglir það til Immingham á Bretlandi og til Rotterdam í Hollandi.
Fyrir helgi var unnið að því að þétta skipið og koma í veg fyrir frekara tjón og fyrirbyggja mengun. „Nú eru menn að meta umfang tjónsins og hvað verður gert með það [skipið] næst.“ Skipið mun vera á Búðareyri þar til ákvörðun verði tekin um annað.
Landhelgisgæslan og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Austurlandi aðstoðuðu við björgun skipsins í kjölfar strandsins. Spurður um greiðslu björgunarlauna segir Pálmar að það fari nú í ferli samkvæmt gildandi lögum og reglum. Ekki liggur fyrir hver heildarupphæðin er.
Samskip hefur, að kröfu björgunaraðila, farið fram á að farmeigendur eða tryggingafélög þeirra leggi fram tryggingu svo unnt verði að afhenda farminn sem fyrst. Aðspurður segir Pálmar, að farmeigendur tryggi sinn farm, enda farmurinn og verðmæti hans hluti af því sem bjargað var.
Eins og segir hér að ofan, sofnaði yfirstýrimaðurinn í brúnni með þeim afleiðingum að skipið strandaði. Spurður um áhrif þess á tryggingarmál segir Pálmar að atvikið hafi engin áhrif á þau.