Vinsælt nám í haf- og strandsvæðastjórnun

Dagný Arnarsdóttir fagstjóri.
Dagný Arnarsdóttir fagstjóri. mbl.is/Kristinn

Í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði fer fram margvísleg starfsemi, s.s. fjarkennsla, námskeiðahald, prófahald og ýmis þjónusta við námsmenn á háskólastiginu. Þar eru haldin fjölmenn námskeið í íslensku fyrir Erasmus-nema og sumarskólar á vegum skóla í Bandaríkjunum og Kanada en Háskólasetrið sjálft býður m.a. upp á meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun, sem hefur verið afar vel sótt.

„Þú getur í raun ekki lært haf- og strandsvæðastjórnun nema á einum 20 stöðum í heiminum að hámarki,“ segir Dagný Arnarsdóttir, fagstjóri námsins. Hún segir að með náminu sé reynt að höfða til alþjóðlegs hóps en stór hluti nemenda komi frá útlöndum. Alls hafa 125 innritast í námið frá því kennsla hófst 2008 og um 70 manns lokið ritgerð.

En um hvað snýst námið?

„Þetta er í raun sjávartengd umhverfis- og auðlindafræði,“ svarar Dagný. „Í grunninn er þetta ekkert ósvipað sambærilegu námi í Háskóla Íslands, nema við erum alveg sérstaklega að fókusa á hafið og ströndina og mjög lítið á það sem er inni í landi, s.s. skóga. Þetta er t.d. lausn ágreiningsmála í úthafsdeilum, hönnun veiðarfæra, rekstur þjóðgarða í sjó eða við sjó og ýmislegt fleira; hækkun sjávarborðs, sjávartengd vandamál tengd loftslagsbreytingum,“ segir hún.

Dagný segir umhverfið á Ísafirði henta vel fyrir námið, þar sé rannsóknarumhverfi þar sem nemendur geta aflað sér upplýsinga og margir nemendur geri lokaverkefni sem tengjast rannsóknarverkefnum á staðinum. Þá segir hún námsfólkið, sem hefur margvíslegan bakgrunn, setja mark sitt á samfélagið.

„Þetta hefur gert mikið fyrir mannlífið. Krítíski massinn, 20-30 manns á ári í bænum, verður til þess að það er hægt að reka eitt kaffihús í viðbót. Við höfum auk þess nokkuð mörg hjónabönd á samviskunni,“ gantast hún „Mér finnst þetta mjög jákvætt fyrir samfélagið; að fá nýtt blóð, fólk með nýjar hugmyndir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert