Akrafell bíður örlaga sinna

Akrafell.
Akrafell. mynd/Samskip

Sameiginlegu sjótjóni var lýst vegna strands Akrafells, flutningaskips Samskipa, en félaginu hefur borist krafa um greiðslu björgunarlauna. Tryggingafélög Samskipa og farmeigenda munu því koma sameiginlega að greiðslu launanna. Farmeigendur athuga nú ástand farmsins en framtíð Akrafells er óljós.

Skipið laskaðist mikið er það strandaði undan Vattarnesi 6. september sl. en það liggur nú bundið við bryggju á Reyðarfirði þar sem það bíður örlaga sinna.

Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segir í samtali við mbl.is, að tryggingafélög allra hagsmunaaðila hafi lýst yfir sameiginlegu sjótjóni 12. september sl. Það þýðir að Samskip og farmeigendur bera sameiginlega ábyrgð á þeim kostnaði sem hlaust við að bjarga þeim verðmætum sem voru um borð í Akrafelli, þ.e. björgunarlaun Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar auk fleiri aðila sem komu að verkefninu.

Pálmar segir að það liggi ekki fyrir hver endanleg upphæð verði enda ekki allir búnir að leggja fram kröfu um greiðslu björgunarlauna. Málið verður afgreitt í gegnum tryggingafélög viðkomandi.

Beðnir um að leggja fram tryggingu

Hann segir að matsferli hafi farið í gang eftir að búið var að lýsa sameiginlegu sjótjóni en þá er lagt mat á verðmæti þess sem bjargað var, þ.e. bæði farm og skip. Eru sérfróðir matsmenn fegnir til verksins. Búast má við að ferlið muni taka margar vikur.

Í síðustu viku sendi Samskip farmeigendum bréf þar sem þeir voru beðnir um að leggja fram tryggingu svo unnt væri að afhenda farminn. Pálmar segir að þetta hafi verið gert að kröfu björgunaraðila.

„Við áframsendum þessar kröfur til farmeigenda til að upplýsa þá um það að þeir færu fram á þetta,“ segir Pálmar. Í framhaldinu var lýst yfir sameiginlegu sjótjóni samkvæmt gildandi lögum og reglum.

Samkvæmt 151. gr. siglingalaga segir að York/Antwerpen-reglurnar frá 1974 gildi um alla þætti sameiginlegs sjótjóns hafi ekki verið samið um annað. Reglurnar snúast um réttláta niðurjöfnun fjártjóns sem verður af völdum spjalla.

Kynna sér ástand farmsins

Farmeigendur óskuðu eftir því í síðustu viku að fá að skoða farminn sem var um borð í Akrafelli í þeim tilgangi að athuga hvort hann sé í lagi. Að sögn Pálmars er sú vinna langt komin. Aðspurður segist hann ekki vita til þess að farmur um borð í skipinu hafi skemmst. Það eigi þó eftir að koma betur í ljós. Frosið sjávarfang og almennar útflutningsvörur, s.s. þurrvara var um borð í Akrafelli.

„Nú erum við að vinna í því að reyna koma vörunni út,“ segir Pálmar

Samskip leigði annað skip, Horst B, til að taka við farminum. Skipið sigldi frá Reykjavík á mánudagskvöld og er það væntanlegt til Reyðarfjarðar á föstudag. Síðar sama dag mun skipið sigla til Færeyja og þaðan til Bretlands og Hollands. 

Áhöfnin enn á Íslandi

Þrettán voru í áhöfn Akrafells, allt erlendir ríkisborgarar. Pálmar segir að skipverjarnir séu frá Filippseyjum og Austur-Evrópu, m.a. Úkraínu og Litháen. Hann segist ekki hafa aðrar upplýsingar en þær að áhöfnin sé enn fyrir austan, þar á meðal yfirstýrimaðurinn sem var ákærður fyrir brot á siglingalögum.

Máli hans lauk á föstudag með viðurlagaákvörðun, en maðurinn samþykkti í Héraðsdómi Austurlands að greiða 700.000 krónur í sekt. Eins og fram hefur komið í fréttum, sofnaði yfirstýrimaðurinn með þeim afleiðingum að skipið strandaði.

Draga lærdóm af strandinu

Skipið skemmdist mikið en engin mengun hlaust af strandinu. Aðspurður segir Pálmar að framtíð Akrafells sé óljós á þessari stundu, en til greina kemur að selja það í brotajárn. „Botninn er mikið skemmdur og vélarrúmið,“ segir Pálmar og bætir að það þurfi að skipta um mikið af stáli til að gera við skipið. Óvíst er hvort það borgi sig en endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir.

-  Er verið að skoða verkferla í kjölfar strandsins?

„Menn munu sjálfsögðu fara yfir það og draga lærdóm af því,“ segir Pálmar, en hann bætir við að Samskip hafi enn ekki fengið upplýsingar um það sem olli strandinu, þ.e. að yfirstýrimaðurinn hafi sofnað í brúnni. „Við höfum ekki séð gögn málsins ennþá. Við höfum enga aðkomu að þessari rannsókn eða þessari sátt,“ segir Pálmar.

Rannsóknin var á forræði lögreglunnar á Eskifirði en henni er nú lokið eins og fram hefur komið. Rannsóknarnefnd samgönguslysa mun einnig rannsaka strandið og hefur nefndin óskað eftir aðgengi að gögnum lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert