Flutningaskipið Green Freezer, sem strandaði á Fáskrúðsfirði á níunda tímanum í gærkvöldi er enn á strandstað. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Fáskrúðfirði er málið enn í biðstöðu og samningaviðræður í gangi.
Að sögn lögreglunnar er vonast til þess að hægt verði að gera eitthvað í kvöld, jafnvel hefja losun skipsins.
Ekki hefur fengist staðfest að varðskipið Þór taki þátt í björgunaraðgerðum. Ekki er heldur vitað hvaða önnur skip taki þátt.
Eins og komið hefur fram í fyrri fréttum mbl.is mun Green Freezer ekki sigla fyrir eigin vélarafli þótt það takist að draga það af strandstað við Fáskrúðsfjörð. Kafarar könnuðu ástand skipsins og er ljóst að eitt skrúfublaðið er alveg af og stýrið stórskemmt.