Hellaskoðun með þungarokkssöngvara

„Ferðin upp í Lofthelli tekur rúman klukkutíma en ætli þetta sé ekki fjögurra til fimm klukkustunda ferð í heildina. Á leiðinni segir maður sögur af sveitinni og hvað maður gerir fyrir utan vinnutíma. Það finnst mörgum svolítið merkilegt að ég sé söngvari í þungarokkshljómsveit í frítíma mínum.

Um daginn komu hingað sjötugar bandarískar konur og þær vildu ólmar kaupa af mér Dimmu-diska, miklar metalkonur greinilega,“ segir Stefán Jakobsson leiðsögumaður Saga Travel í Mývatnssveit og söngvari þungarokkshljómsveitarinnar Dimmu. Stefán flutti í haust aftur heim í Mývatnssveit, þar sem hann ólst upp en gekk menntaveginn í Reykjavík.

Stefán er með stóra fjölskyldu en hann og Hilda kona hans eiga þrjú börn og Hilda á eitt úr fyrra sambandi. Leigumarkaðurinn sunnan heiða tekur einfaldlega ekki við svo stórri fjölskyldu sem er að ljúka námi þannig það var ekkert annað að gera en að flytja á heimaslóðir.

„Þetta er vinnan mín í vetur. Þetta og að vera tónlistarkall. Sjáum til hvað gerist næsta vetur.“

Ekki fyrir fólk með innilokunarkennd

Saga Travel fer yfirleitt tvær ferðir á dag í Lofthelli og eru það fjórir heimastrákar sem ferja ferðamenn í hellinn. „Þetta er rosalega skemmtileg vinna. Ekki lifir maður á rokkinu einu saman,“ segir Stefán um leið og hann fer yfir öryggisreglur ferðarinnar með hópnum sem er að fara í ferðina.

„Ok, let´s go,“ segir hann svo og drífur mannskapinn upp í Ford Econoline. Ekið er frá þorpinu Reykjahlíð að Hverfjalli, upp Nökkvabrekku, að Hvannfelli og síðan gengið rúmlega 800 metra eða svo á úfnu Búrfellshrauni. Þar er stigi niður í hellinn og læstar dyr sem Stefán og aðrir leiðsögumenn hafa lykil að.

„Hellinum var lokað fyrir einhverjum árum því það var orðinn svo mikill ágangur í hann.“

Ferðin er ekki fyrir fólk með innilokunarkennd og hún tekur á líkamlega þannig að ekki er mælt með að ung börn fari í þessa ævintýraferð. Lofthellir myndaðist fyrir 3500 árum og er hitastigið inni í honum rúm ein gráða. Hann er mjög langur og ævintýraheimur útaf fyrir sig en hér fyrir neðan má lesa um hvernig hellirinn fannst og af hverju hann heitir Lofthellir.

Saga á hverjum kílómetra

„Ég þarf að láta fólk vinna saman þarna niðri og ég segi við fólk á leiðinni að þetta snúist um samvinnu inni í hellinum. Maður bjargar því á meðan við keyrum. Þessi tíu manna hópur sem er hérna með okkur virkar mjög skemmtilegur. Ég bað þau að finna nafn á hópinn og þau bjuggu til nafnið Tabúamek. Toppaðu það,“ segir hann og hlær.

„Ferðin snýst ekki bara um Lofthelli því það er merkilegur tröllabátur í Nökkvabrekku og það þarf að segja söguna af tröllskessunni sem átti bátinn, það þarf að tala um skarðið sem er þarna við hellismunan sem er gömul gosrás og myndar einskonar hálfpípu þannig fólk getur í raun séð þverskurð af hellinum áður en það fer í hann. Fólk er líka hrifið af Hverfjalli og í raun af öllu á leiðinni. Þetta er nefnilega þannig leið að það er saga á hverjum kílómetra. Stundum vill fólk samt bara fræðast um kindur og lífið í sveitinni. Það koma allskonar spurningar um allskonar vitleysu.“

Snjór lokar stundum hellinum

Ferðirnar í Lofthelli eru farnar eins oft og þurfa þykir en síðasta vetur var ein ferð farin á dag enda ferðaþjónustan í sveitinni orðin að heilsárs-atvinnugrein og þangað kemur fólk frá öllum heimshornum. „Við förum í hellinn eins lengi og það er hægt. Stundum lokar snjórinn honum og þá gerum við bara eitthvað annað með fólki. Það er nóg að skoða hér í sveitinni og þó hellirinn lokist þá opnum við bara aðrar dyr.“

Hellirinn sem sást úr lofti

Saga Lofthellis er nokkuð sérstök því þessi 3500 ára gamli hellir uppgötvaðist úr lofti 1989. Þá flaug flugmaður yfir Mývatnssveit og sá mikið niðurfall í hrauninu. Lét hann heimamenn vita og þeir skunduðu af stað og fundu þennan stóra helli skammt frá Hvannfelli en þar hafa heimamenn veitt rjúpur í mörg ár.

Í hellinum eru hvelfingar, um 15 metra breiðar og lofthæð er sums staðar 10-15 metrar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert