Með skaddað stýri og laskaða vél

Green Freezer á strandstað í Fáskrúðsfirði.
Green Freezer á strandstað í Fáskrúðsfirði. Ljósmynd/Árni Jóhannesson

Flutningaskipið Green Freezer siglir ekki fyrir eigin vélarafli þótt það takist að draga það af strandstað við Fáskrúðsfjörð. Kafarar könnuðu ástand skipsins og er ljóst að eitt skrúfublaðið er alveg af og stýrið stórskemmt. Enn er óvíst hvaða skip verður notað til að draga Green Freezer til hafnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Alberti Kemp, fréttaritari mbl.is á Fáskrúðsfirði, er tekist á um hver fær að draga skipið. Segja má að nánast barist sé um það enda miklir fjármunir í húfi, í formi björgunarlauna.

Unnið er að því að setja mengunargirðingu í kringum skipið og mun dráttarbáturinn Vöttur „kippa í“ Green Freezer um klukkan ellefu, á háflóði. Engin merki eru um leka og er mengunargirðingin aðeins til öryggis. Takist ekki að ná skipinu úr fjörunni má búast við að önnur tilraun verði gerð þegar varðskipið Þór er komið á staðinn en það er núna staðsett fyrir norðan land. Það verður þá ekki fyrr en á kvöldflóðinu.

Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi strandaði skipið í gærkvöldi í kjölfar vélarbilunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert