Ákveðið hefur verið að bíða eftir varðskipinu Þór áður en reynt verður að losa flutningaskipið Green Freezer af strandstað við Fáskrúðsfjörð. Bendir það til þess að komist hafi niðurstaða í það hvaða skip muni draga flutningaskipið til hafnar eftir að það hefur verið losað.
Greint var frá því fyrr í morgun að Green Freezer muni ekki sigla fyrir eigin vélarafli þótt það takist að draga það af strandstað við Fáskrúðsfjörð. Kafarar könnuðu ástand skipsins og er ljóst að eitt skrúfublaðið er alveg af og stýrið stórskemmt.
Sett hefur verið upp mengunargirðing í kringum skipið en hætt var við það að dráttarbáturinn Vöttur „kippti í“ Green Freezer á flóði fyrir hádegi í dag. Þess í stað hefur verið ákveðið að bíða eftir varðskipinu Þór sem áætlað er að muni koma að Fáskrúðsfirði undir kvöld.
Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi strandaði skipið í gærkvöldi í kjölfar vélarbilunar.