Staðfesti orðróm um njósnir

Ma Jisheng, fyrrverandi sendiherra Kína á Íslandi.
Ma Jisheng, fyrrverandi sendiherra Kína á Íslandi. mbl.is/Kristinn

Kallað er eftir því í kínverska dagblaðinu The Global Times í dag að stjórnvöld í Kína upplýsi hvort orðrómur þess efnis að sendiherra landsins á Íslandi hafi verið handtekinn vegna gruns um njósnir fyrir Japan sé á rökum reistur. 

Sendiherrann, Ma Jisheng, yfirgaf Ísland skyndilega í janúar á þessu ári og hefur enginn verið skipaður í hans stað. Íslenskum stjórnvöldum hafi einungis verið tjáð að sendiherrann gæti ekki snúið aftur af persónulegum ástæðum. Dagblaðið, sem rekið er af kínverska ríkinu, hvetur stjórnvöld í Kína til þess að eyða öllum vafa í málinu í því skyni að upplýsa kínverskan almenning um þær hættur sem Kína stafaði af njósnum. Sjaldan sé greint frá slíkum málum, sem tengdust kínverskum embættismönnum, í þarlendum fjölmiðlum.

Sjá frétt mbl.is: Handtekinn grunaður um njósnir

Vitnað er í dagblaðið Ming Pao í Hong Kong í frétt AFP þar sem segir að sendiherrann og eiginkona hans séu grunuð um að hafa afhent Japönum kínversk ríkisleyndarmál. Hann hafi verið háttsettur embættismaður Kína í Japan á árunum 2004-2008. Engar upplýsingar hafi verið veittar um það hvar sendiherrann væri niðurkominn. Fram kemur í The Global Times að vonandi verði upplýst um mál hans til þess að það verði öðrum víti til varnaðar.

Fram kemur í frétt Ming Pao að þetta yrði í annað sinn sem kínverskur sendiherra væri handtekinn fyrir njósnir. Þannig hafi sendiherra Kína í Suður-Kóreu, Li Bin, verið handtekinn í desember 2006 grunaður um að hafa veitt þarlendum stjórnvöldum leynilegar upplýsingar. Hann hafi síðar verið dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir efnahagsbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert