Ákvörðun um íhlutun kom á óvart

Flutningaskipið Green Freezer á strandstað.
Flutningaskipið Green Freezer á strandstað. Landhelgisgæslan/Sigurður Ásgrímsson

Garðar Jóhannsson, forstjóri Nesskips sem er umboðsaðili skipsins Green Freezer sem strandaði á Fáskrúðsfirði á miðvikudagskvöld,  segir að ákvörðun um íhlutun Landhelgisgæslunnar hafi komið á óvart.

„Eigendur töldu sig vera að vinna að þessu björgunarplani í góðri trú og í samvinnu við Landhelgisgæsluna. Þess vegna kom þessi beiting Landhelgisgæslunnar á íhlutunarrétti mjög á óvart. Sérstaklega í ljósi aðstæðna þar sem ekki stafar nein hætta af skipi né að umhverfi. Veður hefur verið gott og ekkert breyst síðan skipið strandaði,” segir Garðar.

Ætlar ekki að geta til um ástæður 

Hann segir að skömmu eftir strandið hafi því verið lýst yfir af hálfu Landhelgisgæslunnar og Umhverfisstofnunar að ekki sé yfirvofandi umhverfishætta af skipinu. „Ég ætla ekki að geta mér til um ástæður þess að þessari íhlutun var beitt,” segir Garðar. Hann veit ekki hvort íhlutunarrétturinn muni hafa í för með sér aukalegan kostnað fyrir fyrirtækið.   

Aðspurður um orð starfsmanns Landhelgisgæslunnar um að plön útgerðarinnar um að nota 28 tonna bát í verkefnið hafi ekki verið raunhæf segir Garðar að hér sé um hreina eftiráskýringu að ræða. Hún hafi ekkert með beitingu íhlutunar að gera.  

Talið er að skrúfa og stýri skipsins hafi skemmst en ekki verður hægt að meta tjónið að fullu fyrr en búið er að losa skipið. Green Freezer er í eigu norska flutningafyrirtækisins Green refers og er skráð á Bahama-eyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert