„Þetta lítur ágætlega út “

Flutningaskipið Green Freezer á strandstað við Fáskrúðsfjörð.
Flutningaskipið Green Freezer á strandstað við Fáskrúðsfjörð. mbl.is/Albert Kemp

 Varðskipið Þór er nú á strandstað Green Freezer í Fáskrúðsfirði og undirbúa það að setja dráttarvíra á milli skipanna svo hægt sé að losa það. Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi  Landhelgisgæslunnar, segir að kafarar séu búnir að skoða skipið og að ágætt útlit sé fyrir það að hægt verði að draga skipið af strandstað innan skamms.

„Menn hafa það í huga að gera þetta með þeim hætti að ekki sé hætta á bráðamengun. En það er mengunargirðing umhverfis skipið og mengunarvarnarbúnaður í varðskipinu Þór en menn eru ekkert að undirbúa það að nota hann. Þetta lítur ágætlega út,“ segir Hrafnhildur.

Virkjað þegar óhapp getur leitt til bráðamengunar 

Eins og fram kom á mbl.is í morgun ákvað Umhverfisstofnun að veita Landhelgisgæslunni umboð til að nota íhlutunarrétt til þess að losa skipið af strandstað. Er ákvæðið að finna í 14.  grein b í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda. Þar segir:  

„Við óhapp sem leiðir til eða getur leitt til bráðamengunar hafs og stranda utan hafnarsvæða skal Umhverfisstofnun gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annast stjórn á vettvangi. Umhverfisstofnun getur farið fram á að heilbrigðisnefnd fari á vettvang og meti umfang bráðamengunar og nauðsynlegar aðgerðir og tilkynni Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd eða öðrum aðilum í umboði stofnunarinnar umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. Umhverfisstofnun, [Samgöngustofa, Vegagerðin]2) og Landhelgisgæsla Íslands skulu gera skriflega aðgerðaáætlun um aðkomu stofnananna og um framkvæmd einstakra verkþátta.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert