Ekki búið að meta tjónið

Green Freezer og Þór við bryggju á Fáskrúðsfirði í gærmorgun.
Green Freezer og Þór við bryggju á Fáskrúðsfirði í gærmorgun. Mbl.is/Albert Kemp

Fjórir kafarar vinna nú að því að taka stýri Green Freezer af skipinu sem liggur við bryggju á Fáskrúðsfirði. Stýrið er ónýtt og verður það tekið af svo skipið láti betuð að stjórn þegar það verður dregið úr firðinum. Skrúfa skipsins er einnig skemmd eftir strandið.

Fundur vegna strandsins fer fram fyrir hádegi í dag en þar verður farið yfir það sem fór miður í tengslum við strandið, skv. upplýsingum frá Jónasi Wilhelmsson Jenssen, yfirlögregluþjóni á Eskifirði.

Skipið hálflestað er það strandaði

Garðar Jóhannsson, forstjóri Nesskipa sem er umboðsaðili skipsins, segir að kafað hafi verið við skipið í gær. Þá kom í ljós að skemmdir voru bundnar við skrúfu og stýri en ekkert bendir til þess að frekara tjón hafi orðið á skipinu.

Skipið var búið að sækja afla í Vestmannaeyjum og í Reykjavík og átti það eftir að koma við í tveimur til þremur höfnum á Austurlandi. Skipið var hálflestað þegar það kom á Fáskrúðsfjörð, en í heild rúmar skipið um 4.000 tonn. Ekkert bendir til þess að farmurinn hafi eyðilagst.

Garðar segir að ekki sé búið að meta tjónið. Ekki verði hægt að gera það fyrr en skipið er komið í slipp. Ekki hefur verið ákveðið hvenær og hvert skipið fer í slipp  en ljóst er að Green Freezer verður á Fáskrúðsfirði í nokkra daga til viðbótar. Áhöfnin dvelur enn um borð í skipinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert