Siglufjarðarbær er í miklum blóma og þar er miklu kostað til. Uppbygging bæjarins hefur tekist vel, svo eftir hefur verið tekið. Eitt mannvirki stingur þó í stúf í bænum og það er flugvöllurinn en hann er í mikilli niðurníðslu og er að drabbast niður.
Þegar Morgunblaðið bar að garði á Siglufirði fyrir skömmu voru Íslenskir aðalverktakar búnir að hreiðra um sig í gömlu flugstjórnarbyggingunni en þeir voru þar að vinna að nýjum snjóflóðagarði.
Síðustu ár hefur mikið verið lagt í nýsköpun í ferðaþjónustu á Siglufirði; þar er til dæmis í smíðum 68 herbergja hótel auk þess sem gömul hús hafa verið gerð upp með miklum glæsibrag.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um mikilvægi uppbyggingar ferðamannastaða enda er þess þörf sökum vaxandi straums ferðamanna hingað til lands. Rætt hefur verið um að fjárframlög til slíkrar uppbyggingar ætti að auka og því kemur lokun vallarins flatt upp á aðila í ferðaþjónustu á Siglufirði.
ISAVIA sem á og rekur flugvelli landsins lokaði vellinum í júlí en byggingin er að drabbast niður í bókstaflegri merkingu. Ástæðan fyrir lokuninni er sögð vera í nafni hagræðingar og sparnaðar.
Athafnamaðurinn Orri Vigfússon er að reisa 1.500 fermetra veiði- og skíðahús í Fljótum í Skagafirði. Hann hefur flogið sínum kúnnum til Siglufjarðar og notast við völlinn.
Í veiði- og skíðahúsinu verður heilsársaðstaða fyrir lax- og silungsveiðimenn yfir sumarið og þyrluskíðamennsku að vetri þar sem skíðað verður um Tröllaskagann. Lúxusinn verður mikill, því þó byggingin verði stór í fermetrum talið, er þetta ekki fyrir fjöldann. Þarna verður lúxusaðstaða fyrir tólf til fimmtán gesti.
Orri hefur flogið gestum sínum frá Keflavík til Siglufjarðar en með lokuninni er áætlunarvélum óheimilt að lenda auk þess sem tryggingar einkaflugvéla krefjast flestar að lent sé á skráðum völlum þar sem óvissa er um ákveðinn aðbúnað þeirra.
Orri segist gjarnan vilja notast við flugvöllinn og segir viljann mikinn meðal annarra athafnamanna á svæðinu. „Við erum nokkrir sem vildum helst taka flugvöllinn yfir. Það er langskynsamlegast. Mér skilst að það standi yfir viðræður á milli Siglufjarðarbæjar og ISAVIA um hvort það sé möguleiki. ISAVIA á byggingarnar en Siglufjarðarbær á landið. Þetta er einhver byggðapólitík sem ég skil ekki og kann ekki á.“
Eins og sést á meðfylgjandi myndum er flugstöðvarbyggingin mjög illa farin og kostnaður við að gera við bæði flugstöðina og flugvöllinn hleypur á tugum milljóna. Það er þó kostnaður sem Orri og félagar eru tilbúnir að leggja í. Enda vilja þeir flytja sína kúnna með flugvélum frá Keflavík í staðinn fyrir að fara landleiðina.