„Þetta var afskaplega áhrifamikil ræða og hún virkilega hreif allan salinn með sér“ segir Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, en hann var viðstaddur þegar leikkonan Emma Watson hélt ræðu á samkomu sem haldin var í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York á sunnudag. Watson talaði meðal annars um það hvers vegna hún er stoltur femínisti, sem hún sagði þó hugtak sem fjöldi fólks væri með fordóma fyrir. Þá sagði hún að oft á tíðum upplifi karlmenn ekki jafnrétti, frekar en konur.
Einar, ásamt fleirum, mætti á samkomuna fyrir hönd Íslands. Hann sagði allan viðburðinn hafa verið mjög áhugaverðan, en auk Watson héldu leikarinn Keifer Sutherland og Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, áhrifamiklar ræður.
Watson hélt ræðuna í tilefni þess að ný herferð sem kallast HeForShe er nú hafin. Herferðin snýst um að virkja karlmenn í mótmælum gegn kynjamisrétti. „Þetta er átak sem passar mjög vel við málflutning Íslands, sem hefur einmitt beitt sér fyrir því að fá fókusinn á það að jafnréttismál séu mál allra en ekki einhvers konar kvennamál,“ segir Einar.
Hann segir átakið ganga út á það að fá karlmenn til að skrifa undir yfirlýsingu, eða heitstrengingu um að þeir ætli að láta sig þessi mál varða. „Markmiðið er að fá 100 þúsund undirskriftir til að byrja með, en það er áfangamarkmið vegna þess að stóra markmiðið er það að ná langt um fleiri, eða milljarði manna,“ segir Einar, og vekur athygli á heimasíðu átaksins HeForShe.org, þar sem karlmenn geta skrifað undir yfirlýsinguna. „Markmiðið er að karlmenn skuldbindi sig með þessum hætti svo það sé ekki bara helmingur jarðarbúa sem geri það, heldur allir.“
UN Women stendur að baki átakinu, en sérstök áhersla hefur verið lögð á samstarf við UN Women á Íslandi síðustu ár. Að sögn Einars er Ísland í hópi þeirra ríkja sem leggja hvað mest til starfseminnar ef miðað er við höfðatölu. Þá situr Ísland í stjórn UN Women þetta árið.
Í ræðu sinni kvaðst Watson hafa gerst feministi meðal annars vegna þess að þegar hún var 14 ára var hún gerð að kyntákni í fjölmiðlum og þegar hún var 15 ára hættu flestar vinkonur hennar í íþróttum vegna þess að þær vildu ekki vera vöðvastæltar. „Það var þá sem að ég vissi að ég væri feministi,“ sagði Watson sem var kölluð ráðrík fyrir að vilja leikstýra skólaleikriti þegar hún var átta ára. Athygli vekur að Watson virtist fara með ræðuna blaðlaust, og segir Einar enga skjái hafa sést sem hún hefði getað lesið af.
Hér fyrir neðan má sjá ræðuna í heild.
Frétt mbl.is: Ræða Emmu Watson vekur athygli