„Ég get tekið undir ýmislegt sem hún segir í bréfinu, að stjórn sjóðsins eigi að vera betur inni í stefnumótun um framtíð hans,“ segir Drífa Snædal, stjórnarmaður í Íbúðalánasjóði, um brotthvarf Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur úr stjórninni og afsagnarbréf hennar.
Steinunn Valdís sagði sig úr stjórninni 19. september síðastliðinn og tilkynnti Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, það bréflega. „Á þeim tíma sem ég hef setið í stjórn ILS hef ég upplifað það að stjórnin er á engan hátt stefnumarkandi í stórum málum sem snerta framtíð Íbúðalánasjóðs. Þá hafa ákvarðanir verið teknar um starfsemi sjóðsins án aðkomu stjórnar,“ segir í afsagnarbréfinu.
Þá segir Steinunn að stórar ákvarðanir og raunveruleg stefnumótun fari fram annars staðar en á vettvangi stjórnar. „Ábyrgð stjórnarfólks í fjármálastofnunum er mikil og stjórnun sjóðsins er ekki í samræmi við góða stjórnarhætti eins og þeir birtast m.a. í leiðbeiningum Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands.“
Hún tekur þó skýrt fram að með því sé hún ekki að gagnrýna það að lýðræðislega kjörin stjórnvöld hafi áhrif eða taki jafnvel ákvarðanir um málefni Íbúðalánasjóðs. „Það gengur hins vegar ekki að hafa slík áhrif og ákvörðunartöku á einum stað en ábyrgðina annars staðar.“
Í samtali við mbl.is segist Drífa geta tekið undir ýmislegt sem Steinunn segir. „Að sjálfsögðu hefur maður einhver áhrif þó það megi alveg til sanns vegar færa, að stjórnin þyrfti að koma betur að framtíðarskipan mála.“
Drífa segist sjálf hafa metið það þannig að betra sé að vera innan stjórnar heldur en utan og ætlar ekki að fara sömu leið og Steinunn Valdís.