„Ætlar Framsóknarflokkurinn að láta beygja sig í þessu máli?“ spurðu Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. Beindi hann orðum sínum til Sigrúnar Magnúsdóttur, þingflokksformanns framsóknarmanna. Spurði hann hvort þingmenn Framsóknarflokksins ætluðu að sætta sig við það að virðisaukaskattur á matvæli yrði hækkaður úr 7% í 12% eins og fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir og ennfremur um hvað fyrirvari þeirra við málið snerist.
Sigrún minnti á að þá nýbreytni í ár að fjárlagafrumvarpið væri lagt fram mun fyrr en áður og fyrir vikið gæfist góður tími til þess að fara yfir tekjuhlið þess. „Við framsóknarmenn munum sannarlega standa vörð um hag heimilanna, það getur þingmaðurinn stólað á. Fyrirvari okkar snerist eingöngu um að við vildum ekki tefja framlagningu þessa frumvarps en höfðum að okkar mati margra innan þingflokksins ekki haft nægjanlegan tíma til að reikna og skoða mismunandi valkosti og dæmi. Þannig að ef það kæmi eitthvað í ljós vildum við þá eflaust gera breytingar á. Við viljum nefnilega vanda okkur kæri þingmaður.“