Neikvæð áhrif sjónræns eðlis og vegna hávaða

mbl.is/Kristinn

Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda vegna rannsóknarborana í Eldvörpum í Grindavík verði sjónræns eðlis. Einnig vegna hávaða á framkvæmdatíma sem komi aftur til með að hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna sem sæki svæðið heim.

Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum á svæðinu.

Þá er Skipulagsstofnun sammála því sem komið hefur fram í framlögðum gögnum um mikilvægi óraskaðra og lítt raskaðra svæða eins og Eldvarpasvæðisins til útivistar og ferðamennsku í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Ljóst sé að áhrif af gerð borplana og borun verði neikvæðari því nær sem farið sé Eldvarpagígaröðinni og að eðli málsins samkvæmt verði umhverfisáhrif meiri eftir því sem fleiri holur verði boraðar og fleiri borplön útbúin.

„Hversu afturkræf og tímabundin sjónræn áhrif af völdum holanna verða ræðst af því hvort þær verða nýttar áfram til mælinga eða lokað. Verði þeim lokað ráðast áhrifin af því hversu vel tekst til með að fjarlægja ummerki um framkvæmdirnar. Það sama á jafnframt við um neikvæð áhrif af völdum hávaða á útivistarfólk á svæðinu en hann verður viðvarandi ef hola er nýtt til mælinga. Ljóst er hins vegar að ef viðkomandi borhola/holur verða nýttar sem vinnsluhola/holur þá tengjast neikvæð áhrif á fyrrnefnda umhverfisþætti byggingu jarðhitavirkjunar á Eldvarpasvæðinu eða í grennd við það ásamt frekari borunum, en þær framkvæmdir munu fara í sjálfstætt ferli mats á umhverfisáhrifum,“ segir í samantekt Skipulagsstofunar um helstu niðurstöður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert