Vilja lögleiða fjárhættuspil

mbl.is/Jim Smart

Þrettán þingmenn hafa lagt fram frumvarp til laga um spilahallir. Fyrsti flutningsmaður er Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, en hann lagði sams konar frumvarp fram á síðasta þingi sem þá var ekki afgreitt.

„Markmið laga þessara er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra. Enn fremur er það markmið laga þessara að starfsemi spilahalla á Íslandi fari fram undir opinberu eftirliti og henni verði sett almenn lagaumgjörð. Þannig skal stuðlað að ábyrgri spilamennsku á Íslandi, allsherjarreglu haldið uppi og hamlað gegn skaðlegum áhrifum á almenning,“ segir í frumvarpinu sem stutt er þingmönnum úr Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Bjartri framtíð.

Fram kemur í greinargerð að fjárhættuspil hafi fylgt mannkyninu um aldir. Allt frá tímum Babýloníumanna, Rómverja, Grikkja og Kínverja. Ennfremur er bent á að ekki sé nýtt í íslenskum lögum að fjárhættuspil sé heimilað á afmörkuðum sviðum og sé enn. Er þar vísað til að mynda til reksturs happadrætta. Þverstæða felist fyrir vikið í banni við fjárhættuspili í atvinnuskyni í almennum hegningalögum.

Þá er bent á að Ísland sé eitt fárra ríkja í hina vestræna heimi sem banni rekstur spilahalla. Þannig sé slíkur rekstur heimilaður í nánast öllum Evrópuríkjum að Íslandi og Noregi undanskildum. „Hvað varðar Noreg er rétt að geta þess að í nýlegum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna þar í landi er kveðið á um að afnema eigi bann við fjárhættuspilum og heimila fjárhættuspil í Noregi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert