Heldur ofurkappreið á Íslandi

Aníta Margrét Aradóttir.
Aníta Margrét Aradóttir. Kristinn Ingvarsson

Aníta Margrét Aradóttir, sem tók þátt í Mongol Derby þolreiðinni í Mongólíu í ágúst, hefur stofnað fyrirtækið Icehorse Extreme sem mun sjá um að skipuleggja kappreið og hestaferðir hér á landi. Aníta segir að þátttakendur Mongol Derby hafi sýnt íslenska hestinum mikinn áhuga. 

„Það eru fjárfestar og samstarfsaðilar með mér í fyrirtækinu sem mun bjóða upp á ævintýraferðir á hestum um landið auk þess sem haldin verður ofurkappreið hér á landi árið 2016. Kappreiðin Icehorse Extreme yrði í anda Mongol Derby en sniðin að íslenska hestinum og íslensku landslagi. Þetta er spennandi dæmi og ég tel að þetta yrði góð kynning fyrir Ísland og íslenska hestinn,“ segir Aníta í tilkynningu. 

„Stefnan er að hestaferðirnar yrðu í þremur styrkleikaflokkum fyrir knapa og yrðu miserfiðar og misdýrar. Erfiðustu ferðirnar yrðu t.d. einungis fyrir mjög vana knapa sem þurfa að standast ákveðnar kröfur til að fá að taka þátt. Knaparnir yrðu að leggja á sig mikið erfiði til að eiga möguleika á að klára ferðina enda verður riðið hratt og langt. Erfiðustu ferðirnar verða dýrastar enda mest í þær lagt. Ferðirnar eru hugsaðar fyrir ævintýrafólk á öllum aldri þótt búast megi við að útlendingar verði að öllum líkindum í miklum meirihluta,“ segir Aníta en sjálf mun hún verða leiðangursstjóri í erfiðustu ferðunum.

 Hún segir að augljóslega yrði kappreiðin Icehorse Extreme árið 2016 einungis fyrir ofurhuga sem tilbúnir séu að leggja ýmislegt á sig svipað og keppendurnir í Mongol Derby. „Stefnan er að Icehorse Extreme yrði ekki síður erfið en Mongol Derby þótt hún verði auðvitað öðruvísi enda allt aðrar aðstæður á Íslandi en í Mongólíu. Hins vegar er ljóst að íslensk náttúra getur verið mjög erfið viðureignar eins og sú mongólska og sömu sögu má að sjálfsögðu segja um íslenska veðrið,” segir Aníta og bætir við að passað verði vel upp á að fara ekki illa með náttúruna í hestaferðunum og kappreiðinni.

Aníta segir að þátttakendur Mongol Derby hafi sýnt íslenska hestinum mikinn áhuga. ,,Þeim fannst íslensk reiðhefð spennandi, og nefndu þá smölun sérstaklega. Það búa klárlega mikil verðmæti í íslenska hestinum sem hægt er að nýta betur. Í mínum huga verður hann alltaf bestur, með sínar fjölbreyttu gangtegundir og einstaka karakter,” segir Aníta og bætir við að nú taki við markaðssetning og skipulagning bæði fyrir hestaferðirnar og kappreiðina.

Viðtal við Anítu birtist í Sunnudagblaði Morgunblaðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert