Verkalýðsfélag Suðurlands mótmælir harðlega því sem það kallar aðför að launafólki sem birtist í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Verkalýðsfélagið sakar stjórnvöld um skilningsleysi gagnvart kjörum almennings.
Fram kemur í ályktun frá VLFS, að gagnrýnir hækkun virðisaukaskatts á matvæli, skert réttindi atvinnulausra, lækkun framlags ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði Lífeyrissjóða „á sama tíma og dælt er peningum inn til opinberu sjóðanna sem þýðir enn meiri ójöfnuð á milli kjara almennra og opinberra Lífeyrissjóða. Þetta leggur auknar byrðar á lágtekjuhópa og sýnir að þeir eru ekki í forgangshópi ríkisstjórnarinnar,“ segir í ályktuninni.
„Það er ótrúlegt skilningsleysi ríkjandi við gerð þessa fjárlagafrumvarps á kjörum almennings. Með þessu frumvarpi er ríkisstjórnin að gefa samstarfi við verkalýðshreyfinguna langt nef. Við þessar aðstæður verður verkalýðshreyfingin að svara þeim skilaboðum skýrt og búa sig undir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hafa í langan tíma.
VLFS áréttar að félög innan ASÍ hafa sýnt mikla ábyrgð við gerð samninga á undanförnum árum. Það getur ekki verið réttlætanlegt að þau beri hana ein í þjóðfélagi sem vill byggja á jöfnuði og sanngirni fyrir þegna sína,“ segir ennfremur.