Í tilkynningu sem ríkissaksóknari birti á heimasíðu sinni í gær kemur fram að sérstakt tilefni sé til þess að gera athugasemd við nokkur atriði sem fram koma í áliti umboðsmanns barna, vegna niðurfellingar á máli tengdu leikskólanum 101.
Ríkissaksóknari segist líta það alvarlegum augum að umboðsmaður barna skuli draga þær ályktanir af afgreiðslu þessa tiltekna máls að börnum sé ekki veitt refsivernd gegn líkamlegri valdbeitingu starfsfólks leikskóla og að ætla megi að það teljist ekki refsivert að beita barn ofbeldi, svo lengi sem það hafi ekki sýnilegar afleiðingar.
Slíkar ályktanir segir ríkissaksóknari að eigi ekki við nokkur rök að styðjast, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.