Karl á þrítugsaldri var í dag í héraðsdómi Reykjavikur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 17. október nk. að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hinn grunaði unir úrskurði héraðsdóms.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
„Eins og fram hefur komið barst lögreglu tilkynning um kona væri látin á heimili sínu í Breiðholti skömmu eftir miðnætti í dag. Tilkynningin barst frá aðila sem hinn handtekni hafði látið vita af andlátinu. Við komu á vettvang vaknaði grunur um að andlát konunnar hefði borið að með saknæmum hætti. Eiginmaður konunnar, sem ekki hefur komið við sögu lögreglu áður vegna sakamála, var handtekinn í íbúðinni og færður í fangageymslu lögreglu. Hann er grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konunnar þannig að hún hlaut bana af,“ segir ennfremur.