Guðrún Ó. Axelsdóttir var aðeins 19 ára þegar þá 33 ára kærasti hennar bað hana um að skrifa undir námslán fyrir hann sem ábyrgðarmaður en lánið var fyrir tveggja ára myndlistarnámi. Í 26 ár eða fram í febrúar 2013 heyrði hún ekkert af láninu en þá fékk hún bréf frá Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem fram kom að lánið sem hún var ábyrgðarmaður fyrir væri komið í vanskil. Nú hefur LÍN stefnt Guðrúnu og krafið hana um 2,7 milljónir króna.
Maðurinn var 29 ára gamall þegar hann stofnaði til sambands við Guðrúnu sem þá var 15 ára gömul. Hún segist muna afar óljóst eftir því að hafa skrifað undir lánasamninginn við LÍN enda hafi hún verið ung og varla skilið þær skuldbindingar sem lágu að baki. Hún fór frá manninum 21 árs gömul. Þrátt fyrir að þau hafi eignast dóttur saman á Guðrún engin samskipti við barnsföður sinn í dag og það á dóttir þeirra ekki heldur.
„Ég rak upp stór augu því ég hafði bara ekkert heyrt meira um þetta lán fyrr en þarna. Hann hefði átt að vera búinn að greiða þetta lán fyrir mörgum árum," segir Guðrún og bætir við að fyrst svo var ekki hefði LÍN í það minnsta átt að upplýsa hana um stöðu mála fyrir löngu.
Í lögum um ábyrgðarmenn sem tóku gildi árið 2009 er tekið fram að lánveitandi skuli senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir. Þegar Guðrún innti LÍN eftir því hvers vegna hún hefði aldrei fengið neinar upplýsingar var henni tjáð að ástæðan væri sú að lánið hefði verið í skilum fram að þessu. Það hefði þó engu átt að skipta enda hafði LÍN þá samkvæmt lögum átt að senda henni tilkynningu um stöðu lánsins eftir hver áramót í fjögur ár.
„Ég spurði LÍN hvað væri búið að borga mikið af láninu og þá var mér sagt að hann hefði ekki greitt krónu. Þá spurði ég hvernig 26 ára gamalt lán gæti verið í skilum án þess að greitt hefði verið af því,“ segir Guðrún.
Á daginn kom að barnsfaðir Guðrúnar hafði fengið að taka annað námslán, á eftir því sem Guðrún var ábyrgðarmaður fyrir. Honum var gert að greiða yngra lánið fyrst af hálfu LÍN og af þeim sökum greiddi hann aldrei inn á lánið sem Guðrún hafði verið í ábyrgð fyrir. Var sú ákvörðun tekin án aðkomu eða vitneskju Guðrúnar.
Eins og áður segir hefur LÍN stefnt Guðrúnu sem ábyrgðarmanni mannsins en þess er krafist að hún greiði 2,7 milljónir króna.
Guðrún telur hinsvegar að LÍN hafi brotið á skýrum skilmálum sem gildi um lánveitingar til barnsföður hennar og þágildandi lögum um LÍN um að endurgreiðsla skyldi hefjast þremur árum eftir námslok, í þessu tilviki í síðasta lagi árið 1997. Hún telur að sú aðgerð að fresta endurgreiðslum á fyrra láninu ætti alfarið að vera á áhættu og ábyrgð LÍN enda sé lánasjóðnum ekki heimilt að gera slíkar breytingar á áhættu og kostnað Guðrúnar, að minnsta kosti ekki án hennar samþykkis.
Guðrúnu er eðlilega hreint ekki rótt. „Ég er nýskilin og með tvö lítil börn á framfæri og því veldur þetta mér miklu fjárhagslegu óöryggi. Ég hef alltaf staðið við allar mínar skuldbindingar og passað upp á mín fjármál en þetta kemur illa í bakið á mér án þess að ég hafi fengið tækifæri til að gera nokkuð í því fyrr.“
Málið verður tekið fyrir 27. október næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Að sögn Bjargar Valgeirsdóttur, lögmanns Guðrúnar, verður aðallega krafist frávísunar vegna óskýrleika í málatilbúnaði LÍN en til vara sýknu af öllum kröfum á hendur Guðrúnu, meðal annars sökum þess að LÍN hefur vanefnt skyldur sínar gagnvart henni sem lánveitandi.