Maðurinn sem sætir gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í íbúð þeirra í Stelkshólum seint á laugardagskvöld mun sæta geðrannsókn. Hann hefur samkvæmt heimildum mbl.is glímt við andleg veikindi. Við skýrslutöku hjá lögreglu hefur maðurinn staðfastlega neitað sök.
Maðurinn, sem verður 29 ára síðar í vikunni, var fluttur á Litla-Hraun eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa barnaverndaryfirvöld verið í sambandi við manninn til að hægt sé að koma tveimur börnum þeirra hjóna fyrir. Þá kemur bróðir hinnar látnu til landsins í dag, en óvíst er á þessari stund hvort börnin verði hjá honum.
Eins og fram kom í tilkynningu frá Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, í gær hefur maðurinn ekki komið við sögu lögreglu áður vegna sakamála. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur hann hins vegar komið við sögu lögreglunnar vegna annarra mála. Þá hefur hann verið vistaður á geðdeild.
Rannsókn málsins er enn í fullum gangi en maðurinn er grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konunnar þannig að hún hlaut bana af. Konan var 26 ára.