Jarðgöng munu breyta miklu

Smátt og smátt lengjast jarðgöngin. Þau verða tilbúin árið 2017.
Smátt og smátt lengjast jarðgöngin. Þau verða tilbúin árið 2017. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Tíu mánuðum eftir fyrstu sprenginguna við gerð Norðfjarðarganga nálgast starfsmenn verktakafyrirtækjanna, sem hafa verkið með höndum, að vera búnir með helming leiðarinnar. Alls verða göngin 7.566 metrar og í síðustu viku var búið að sprengja 2.080 metra Eskifjarðarmegin og 1.350 metra úr Fannardal inn af Norðfirði. Alls gerir þetta um 45% leiðarinnar.

Fastir í rauðabergi

„Síðustu daga höfum við reyndar verið fastir í rauðabergi inni í fjallinu Eskifjarðarmegin. Það kallar á styrkingar í berginu svo sprengja megi sig áfram en í hverri fyllu við þessar aðstæður er verið að taka þetta 1,5-2 metra. Alla jafna skilar hver sprenging okkur þó fimm metrum áfram,“ segir Sigurjón Ólafsson, verkstjóri hjá Suðurverki.

Saman stóðu Suðurverk og tékkneska fyrirtækið Metrostav as. að 9,3 milljarða króna tilboði í gangagerðina og fengu pakkann. Samanlagt eru þessi tvö fyrirtæki með um fimmtíu manns á verkstað. Unnið er allan sólarhringinn á tólf tíma vöktum. Er gangurinn sá að Tékkarnir vinna í tvo mánuði og eiga frí þann þriðja, en Íslendingarnir vinna í tvær vikur og þriðju vikuna í fríi. Þess má og geta að Metrostav var í aðalhlutverki við gerð Héðinsfjarðarganga og því er mannskapurinn öllu vanur og almennt er í verki þessu valinn maður í hverju rúmi.

„Jarðgöngin munu breyta miklu fyrir Neskaupstað og auka öryggi vegfarenda. Leiðin yfir Oddsskarð er einn hæsti fjallvegur landsins og í vetrarveðrum teppist leiðin oft. Síðustu tveir vetur hafa verið sérstaklega leiðinlegir,“ segir Níels Atli Hjálmarsson, lögreglumaður í Neskaupstað.

Oddsskarðsgöng, sem voru opnuð árið 1977, eru í 620 metra hæð og fáir vegir á landinu, og sá sem að þeim liggur, fara jafnhátt. Bæði Eskifjarðar- og Norðfjarðarmegin eru brattar brekkur og vegur í alls konar beygjum og sveigjum. Af því leiðir hætta á slysum, sem nokkur hafa orðið. Fyrir nokkrum árum valt rúta upp af Eskifirði og þar hafa flest óhöppin orðið, þótt slík hafi líka hent þegar ekið er niður í Norðfjörð.

Annar verður að bakka út

Þótt yfir háa fjallvegi sé að fara er Fjarðabyggð eitt atvinnusvæði. Um 70 manns úr Neskaupstað sækja vinnu í álverinu á Reyðarfirði og fara á milli með rútu sem gengur samkvæmt vaktaplani. Er því mjög bagalegt, starfseminnar vegna, ef þessar ferðir falla niður vegna veðurs. Þá verður að tiltaka að í Neskaupstað er fjórðungssjúkrahús Austlendinga og því eru göngin neyðarleið sem halda þarf opinni svo lengi sem gerlegt er. „Í þessum mjóu jarðgöngum geta bílar ekki mæst og sumir ná ekki að stinga sér fljótt inn í útskotin þegar bílar koma á móti. Og ef flutningabílar mætast þarna inni verður annar hvor að bakka út og við aðstæður eins og þarna eru er slíkt vandasamt. Þegar mikið er um að vera hér í bænum, til dæmis um verslunarmannahelgina í tengslum við Neistaflug, þarf lögreglan að vera uppfrá og stýra umferð í gegn. Ferðir okkar þarna uppeftir eru margar og björgunarsveitarmanna enn fleiri,“ segir Níels Atli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert