Andlát: Kjartan Sveinsson

Kjartan Sveinsson.
Kjartan Sveinsson.

Kjartan Sveinsson byggingatæknifræðingur lést á Landspítalanum í Fossvogi laugardaginn 27. september síðastliðinn, 88 ára að aldri. Hann fæddist 4. september 1926 á Búðareyri við Reyðarfjörð, sonur Sveins Jónssonar verslunarmanns og Guðnýjar Pálsdóttur húsfreyju.

Kjartan lauk gagnfræðaprófi 1945. Hann lærði húsasmíði hjá Tómasi Vigfússyni byggingameistara 1946-1950 en haustið 1950 fór hann til Svíþjóðar og nam við lýðháskóla í boði Norræna félagsins. Árið 1952 hóf hann nám í byggingatæknifræði við Katrineholms Tekniska skola í Svíþjóð, sem hann lauk 1955.

Kjartan hóf störf á teiknistofu Húsameistara Reykjavíkur 1955, þar sem hann vann meðal annars með Einari Sveinssyni og Gunnari Ólafssyni. Þar starfaði hann í sex ár en stofnaði eigin teiknistofu 1961 og rak hana í 43 ár. Eftir hann liggja teikningar að um það bil 5.000 einbýlishúsum og raðhúsum og 10.000 íbúðum í fjölbýlishúsum. Þá teiknaði hann Hótel Örk í Hveragerði og fjölda skóla ásamt skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði. Kjartan var afar farsæll í starfi og eftirsóttur hönnuður og þekktur fyrir þann stíl sem einkennir mörg húsa hans. Hafa þau meðal annars verið kölluð Kjartanshús, en hann varð einna fyrstur manna hér á landi til að skreyta einbýlishús með súlum.

Kjartan og eftirlifandi eiginkona hans, Hrefna Kristjánsdóttir, ráku saman Bón- og þvottastöðina í Sóltúni í 37 ár, frá 1969-2006, þegar þau seldu fyrirtækið.

Kjartan var mikill skautamaður og keppti meðal annars við kanadíska hermenn í skautastökki á yngri árum og hafði sigur. Eftirlifandi börn Kjartans eru Þórarinn, Álfheiður og Arndís en fósturdóttir Kjartans er Sigfríð Þórisdóttir.

Útför Kjartans verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju kl. 15 föstudaginn 3. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert