Enn verið að meta tjón vegna Akrafells

Akrafellið á strandstað.
Akrafellið á strandstað. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Akrafell, flutningaskip Samskipa, liggur enn við bryggju á Reyðarfirði. Skipið laskaðist mikið er það strandaði undan Vattarnesi þann 6. september sl. Ekki liggur fyrir hvort gert verði við skipið eða það verði selt í brotajárn. Þá er ekki vitað hversu mikið tjónið vegna strandsins er.

Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segir í samtali við mbl.is að verið sé að leita tilboða í kostnaðarmat á mögulegum kostnaði vegna viðgerða á skipinu.

Matið er tvíþætt, annars vegar þarf að gera við skemmdir sem urðu á stálinu, botni skipsins, þegar skipið strandaði og hins vegar þarf að gera upp vélarrúmið sem fylltist af sjó.

Ekki liggur því enn fyrir hversu mikið tjónið er vegna strandssins eða hversu mikið verður greitt út vegna björgunarlauna. 

Selt í brotajárn eða gert við það?

Þegar búið er að afla allra upplýsinga verður hægt að meta hvort gert verði við skipið eða hvort það verði selt í brotajárn. Pálmar Óli bendir á að svona mál geti tekið langan tíma og því verður Akrafell líklega bundið við bryggju á Reyðarfirði næstu daga og vikur.

Margir áttu farm í skipinu þegar hann strandaði og var sameiginlegu sjótjóni lýst yfir. Allir þeir sem höfðu áhuga á að líta á farminn hafa gert það og er megnið af farminum komið á hreyfingu, að sögn Pálmars Óla.

Þrettán manns voru í áhöfn skipsins, allt erlendir ríkisborgarar. Yfirstýrimaðurinn var ákærður fyrir brot á siglingalögum og greiddi hann 700 þúsund krónur í sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert