Maðurinn sem sætir gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í íbúð þeirra í Stelkshólum síðastliðið laugardagskvöld hefur ekki verið yfirheyrður af lögreglu í dag. Hann er nú vistaður á Litla-Hrauni en þangað var hann fluttur eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Brynjólfur Eyvindsson, verjandi mannsins, segir í samtali við mbl.is ekki vitað hvenær yfirheyrslur hefjast að nýju. „Ég veit ekki hvort það verða yfirheyrslur í vikunni. Það kemur bara í ljós,“ segir hann en maðurinn var heldur ekki yfirheyrður af lögreglu í gær.
Að sögn Brynjólfs er bróðir hinnar látnu nú kominn til landsins og er búið að finna réttargæslumann fyrir börn hjónanna, en þau eru tveggja og fimm ára gömul. Þau voru stödd á heimilinu þegar andlátið átti sér stað.
Brynjólfur segir manninn einkum hafa talað um börn sín í samtölum þeirra. „Hann hefur miklar áhyggjur af þeim en þau eru nú komin til vinafólks.“
Hinn handtekni er á 29. aldursári og er hann grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konu sinnar, sem var 26 ára gömul, þannig að hún hlaut bana af. Hann mun sæta gæsluvarðhaldi til 17. október næstkomandi að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna.