Gylfi H. Gylfason, lögreglufulltrúi í greiningardeild ríkislögreglustjóra, mun næstu þrjá mánuði stunda nám við lögregluháskóla FBI (FBI National Academy) í Quantico, Bandaríkjunum.
Námið er ætlað stjórnendum í lögreglu en helsta markmið þess er að auka þekkingu nemenda og gera þá betur í stakk búna til að takast á við flókin löggæsluverkefni og tryggja góð alþjóðleg samskipti löggæslustofnana á heimsvísu. Nám þetta er í samvinnu við háskólann í Virginíufylki.
Lögregluháskóli FBI er þekktur á alþjóðavettvangi fyrir þetta nám en þar er meðal annars kennd stjórnun, aðferðafræði við rannsóknir afbrota, afbrotafræði og margt fleira, auk líkamsþjálfunar, segir í frétt á vef lögreglunnar um málið.
Gylfi er níundi íslenski lögreglumaðurinn sem leggur stund á nám við skólann.
Áður hafa eftirtaldir lögreglumenn lokið námi þessu:
Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins (1985)
Guðmundur Guðjónsson fyrrv. yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra (1993)
Gunnar Jóhannsson lögreglufulltrúi hjá lögreglustjóranum á Akureyri (1995)
Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og tengslafulltrúi Íslands hjá Europol (1999)
Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra (2000)
Berglind Kristinsdóttir lögreglufulltrúi hjá sérstökum saksóknara (2004)
Sveinn Ingiberg Magnússon yfirlögregluþjónn hjá sérstökum saksóknara (2007)
Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins (2012)