Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, býr skammt frá heimili Gross fjölskyldunnar í Ealing og gengur oft meðfram Grand Union skipaskurðinum þar sem síðast sást til Alice Gross þann 28. ágúst sl. Hún var þar á nánast sama tíma og stúlkan sást þar á öryggismyndavélum. Ingibjörg segir íbúa hverfisins lamaða vegna málsins, fyrst hvarfs stúlkunnar og nú morðsins á henni.
Lík Alice Gross, fjórtán ára, fannst í Brent ánni í gærkvöldi og að sögn lögreglu er málið nú rannsakað sem morð en af ummerkjum má ráða að töluvert hefur verið haft fyrir því að fela líkið þannig að útilokað er að um sjálfsvíg hafi verið að ræða.
Ingibjörg Rósa segir að Ealing hverfið sé stórt hverfi í Vestur-Lundúnum en Alice Gross bjó í Hanwell bæjarhlutanum sem er næsti bæjarhluti við þann hluta Ealing sem Ingibjörg Rósa býr í, Northfields.
„Þetta hefur legið sem mara á okkur í meira en mánuð,“ segir Ingibjörg Rósa sem átti leið um stíginn við skipaskurðinn á sama hálftímanum og Alice sást síðast svo vitað sé.
Hún segir að það sé augljóst á umfjöllun fjölmiðla í dag að enginn vafi leiki á að um morð sé að ræða en fyrst eftir hvarf stúlkunnar hafi jafnvel verið talið að hún hefði framið sjálfsvíg eða látið sig hverfa af sjálfsdáðum.
Nú séu aðstandendur og vinir fjölskyldunnar að biðja þá sem hafa stofnað Facebook síður og Twitter aðgang vegna leitarinnar að loka þeim. Eins eru veggspjöld út um allt Ealing hverfið og gulir borðar í tengslum við leitina og er fólk beðið um að taka veggspjöldin niður.
Mörgum finnist óþægilegt að taka niður veggspjöldin enda ljóst að Alice Gross er dáin en íbúar í hverfinu hafa verið mjög duglegir við að hengja upp veggspjöldin þar sem meðal annars er biðlað til Alice um að koma aftur heim ef hún hafi farið í sjálfskipaða útlegð. „Þetta er svo endanlegt nú þegar ljóst er hvað gerðist,“ segir Ingibjörg Rósa.
„Það er meira en mánuður síðan hún hvarf og veggspjöldin hafa verið fyrir allra augum á hverjum einasta degi síðan þá og Alice ofarlega í hugum íbúanna. Hvort sem þeir þekktu hana persónulega eða ekki,“ segir Ingibjörg Rósa.