Ríkissaksóknari vanhæfur til að svara erindi

Forsíða Morgunblaðsins daginn eftir að dómur hafði verið kveðinn upp …
Forsíða Morgunblaðsins daginn eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í Guðmundar- og Geirfinnsmálum þann 27. desember 1977. mbl.is

Ríkissaksóknari hefur í dag ritað dómsmálaráðherra bréf þess efnis að hann telji sig vera vanhæfan til að veita endurupptökunefnd umsögn um viðhorf sitt til þeirra tveggja endurupptökubeiðna sem fram eru komnar vegna Hæstaréttarmálsins nr. 214/1978.

Er hér vísað til Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Í bréfi ríkissaksóknara kemur fram að endurupptökubeiðnirnar byggjast m.a. á þeim rökum að með nýjum gögnum hafi verið sýnt fram á að játningar sakborninga í svokölluðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem var einn helsti grundvöllur sakfellingar, hafi verið fengnar fram með ætlaðri refsiverðri háttsemi þeirra sem komu að rannsókn málanna.

Var í beiðnunum vísað til b. liðar 1. mgr. 211. gr. sml. hvað þetta atriði varðar.

„Ákvæðið fjallar um það skilyrði fyrir endurupptöku að ætla megi að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru. Þá er í beiðnunum vísað til þess að ætla megi að verulega miklu hefði skipt fyrir niðurstöðu málanna ef þessi nýju gögn hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr. a. liður 1. mgr. 211. gr. sml. Einnig vísa endurupptökubeiðendur til til ákvæða c. og d. liða 1. mgr. 211. gr. sml. og telja að uppfyllt séu þau skilyrði til endurupptöku dæmds sakamáls sem þar er lýst, og grundvallast sú ályktun að m.a. á þeirri málsástæðu sem nefnd var hér í upphafi og varðar ætlaða refsiverða háttsemi þeirra sem að rannsókninni komu,“ segir í bréfi ríkissaksóknara.

„Örn Höskuldsson, fulltrúi yfirsakadómara, vann að rannsókn beggja málanna og stýrði rannsókn þeirra framan af. Örn er kvæntur móðursystur minni. Þessar aðstæður gefa réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni mína hvað varðar umsögn ríkissaksóknara um viðhorf til endurupptökubeiðnanna,“ segir í bréfi ríkissaksóknara.

Ríkissaksóknari segir í bréfi sínu að niðurstaða um hæfi hans ræðst ekki af því hvort hann telji sig geta fjallað um beiðnirnar á hlutlægan hátt. „Heldur ræðst hún af því hvort almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst að svo sé.“

Nálgast má bréf ríkissaksóknara í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert