Bleik ljós voru tendruð við Skólavörðustíg í kvöld í tilefni af árveknis- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagsins sem kennt er við Bleiku slaufuna.
Var það borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, sem tendraði ljósin með dyggri aðstoð starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur.
Reykjavík fær á sig bleikan blæ í október ár hvert. Í ár eru fjöldi bygginga lýst með bleiku ljósi auk þess sem fimm strætisvagnar verða skreittir með bleikum slaufum.
Í ár vill Krabbameinsfélagið vekja sérstaka athygli meðal ungra kvenna á nauðsyn þess að mæta reglulega í leghálsstroku og að vanda verður sjálf Bleika slaufan seld í fjáröflunarskyni.