Rannsókn á andláti konu í Stelkshólum er í fullum gangi og ekki hægt að upplýsa nánar um hvernig henni miðar að svo stöddu, segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu. Eiginmaður konunnar situr í gæsluvarðhaldi en hann er grunaður um að hafa orðið konu sinni að bana.
Manninum var gert að sæta geðrannsókn en að sögn Friðriks Smára er töluvert í að niðurstaða hennar liggi fyrir.
Hinn handtekni er 29 ára og er hann grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konu sinnar, sem var 26 ára gömul, þannig að hún hlaut bana af. Hann mun sæta gæsluvarðhaldi til 17. október að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Að sögn Friðriks Smára eru ekki gefnar upplýsingar um gang rannsóknarinnar dag frá degi af hálfu lögreglunnar en enn séu rannsóknarhagsmunir fyrir hendi og manninum því enn haldið gæsluvarðhaldi.
Tilkynning barst um andlát konunnar skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags frá manni, sem hinn grunaði hafði látið vita að konan væri látin. Þegar lögreglan kom á vettvang vaknaði grunur um að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti. Tvö börn þeirra hjóna, tveggja og fimm ára, voru á heimilinu þegar konan lést.