Barnabókahöfundurinn Guðrún Helgadóttir á fjörutíu ára rithöfundarafmæli og kom fyrsta bók hennar um tvíburana Jón Odd og Jón Bjarna út árið 1974. Alls hafa tuttugu og fimm barnabækur eftir Guðrúnu komið út og er sú tuttugasta og sjötta á leiðinni. Sjálf botnar hún ekkert í því hvernig fjörutíu ár geta liðið svona hratt og segir hraðann slíkan að það sé rétt eins og að sitja í hraðlest gegnum lífið.
Það er alveg makalaust hvað þær eru að hafa fyrir mér, þessar elskur,“ segir rithöfundurinn Guðrún Helgadóttir og á þar við starfsfólk Borgarbókasafns Reykjavíkur sem er í óðaönn að leggja lokahönd á mikla sýningu í tilefni af fjörutíu ára rithöfundarafmæli Guðrúnar. Til viðbótar við sýninguna verður sérstök hátíðardagskrá á sunnudag og hefst hún klukkan 15 í útibúi safnsins við Tryggvagötu. Á sýningunni er fjölmargt sem tengist verkum Guðrúnar og má þar meðal annars sjá brúðuna Pál Vilhjálmsson sem margir muna eftir úr Stundinni okkar. Guðrún skrifaði alla texta fyrir Pál og gaf síðar út um hann bók.
Bækur Guðrúnar eru sívinsælar á bókasöfnum landsins en það eru ekki einungis bókasöfnin og gestir þeirra sem eru Guðrúnu þakklátir því án þess góða fólks sem á bókasöfnum starfar væru íslensku barnabækurnar ekki eins frábærar og raun ber vitni. Það segir Guðrún og talar af reynslu. „Þegar við fórum að eignast menntaða bókasafnsfræðinga gjörbreyttist útgáfa barnabóka,“ segir Guðrún og minnist tiltölulega óvandaðra bóka sem gefnar voru út fyrir börn. „Þegar ég var að lesa fyrir börnin mín voru þessar bækur illa þýddar, á ljótum pappír og illa myndskreyttar. Það varð nú eiginlega til þess að ég fór að segja krökkunum mínum sögur,“ segir hún og þannig urðu sögurnar af tvíburunum Jóni Oddi og Jóni Bjarna til.
Guðrún segir að gjörbreyting hafi orðið á útgáfu barnabóka skömmu síðar og nefnir þar meðal annars Silju Aðalsteinsdóttur sem gert hefur margt fyrir barnabókmenntirnar. „Ég segi nú stundum að það sé eins með mig og Bítlana: Ég hefi verið á réttum tíma og á réttum stað. Þegar ég var byrjuð gat ég bara ekki hætt,“ segir Guðrún og vísar þar til þess frjósama jarðvegs sem verk hennar féllu í og þeirra góðu breytinga sem orðið hafa á síðustu áratugum í bókmenntum barna.
Það var ekki ætlun Guðrúnar að sögurnar af Jóni Oddi og Jóni Bjarna kæmu út á prenti því þetta voru sögur sem hún sagði krökkunum sínum á kvöldin. Spurð hvort tvíburarnir hefðu átt sér fyrirmyndir segir hún svo ekki vera. „Ég þekkti satt að segja enga tvíbura. Þetta varð nú bara til þannig að þeir væru þarna tveir og gætu leikið sér saman,“ segir Guðrún og bætir svo við að Silja, sem þá var með barnatímann í útvarpinu, hafi frétt af sögunum af Jóni Oddi og Jóni Bjarna og fundist þær svo sniðugar að hún gerði þeim skil í útvarpinu. „Þá komst Valdimar Jóhannsson í Iðunni, sá mæti maður, í þetta og þar með var bókin komin í prent.“
Vinsældir þessara uppátækjasömu tvíbura urðu slíkar að Guðrún varð að skrifa meira um þá. „Þessar sögur náðu þjóðinni og ég fékk upphringingar frá sjómönnum á hafi úti sem grátbáðu mig að halda áfram að skrifa,“ segir Guðrún sem tók óskum fólks vel. Ári síðar, 1975, kom út bókin Meira af Jóni Oddi og Jóni Bjarna. Þriðja bókin, Enn af Jóni Oddi og Jóni Bjarna kom út árið 1980 en sögurnar hafa ratað bæði á hvíta tjaldið og á fjalir leikhússins við mikinn fögnuð barna og fullorðinna í gegnum tíðina.
Þó svo að fimm ár hafi liðið á milli seinni bókanna tveggja um bræðurna er ekki þar með sagt að Guðrún hafi lagt frá sér skriffærin. Í millitíðinni komu út bækurnar Í afahúsi og Páll Vilhjálmsson auk þess sem Guðrún skrifaði leikritið Óvitar. Bókin Páll Vilhjálmsson er sú bók Guðrúnar sem selst hefur í flestum eintökum fyrir jól en hún kom út árið 1977 og fyrir jólin það árið seldust 13.000 eintök af henni. Strákurinn Páll var upphaflega brúða í barnatíma sjónvarpsins og var aðkoma Guðrúnar að brúðunni dálítið skemmtileg. „Gísli Rúnar Jónsson talaði fyrir strákinn og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir talaði við strákinn í Stundinni okkar. Svo voru þau komin í einhver vandræði með texta handa Palla svo ég var beðin um að annast það og gerði í tvö ár,“ segir Guðrún.
Vinsældir Páls Vilhjálmssonar voru með ólíkindum. „Það varð bara sprengja. Allir, ungir sem aldnir, settust við sjónvarpið á hverjum einasta sunnudegi og horfðu á Palla,“ segir hún. Eftir tvö ár var hún búin að fá nóg af textaskrifum fyrir Pál. „En þá fór ég að hugsa að það yrði leiðinlegt ef hann væri þar með bara búinn og horfinn og ákvað að snara upp bók um strákinn,“ og fyrir vikið lifir Páll, líkt og aðrar sögupersónur þessa afkastamikla rithöfundar.
Guðrún lítur yfir árin fjörutíu sem hún segir hafa fært sér mikla hamingju. En stóra spurningin er hvort hún ætli sér að skrifa meira? „Já, svo sannarlega. Ég er að vinna að bók núna en er ekkert að flýta mér. Það kemur bara þegar það vill koma. Mér finnst alveg óskaplega mikilvægt að skrifa fyrir börn og ég heyri það langar leiðir á börnum hvort lesið hefur verið fyrir þau eða ekki. Það er bara svo gjörsamlega greinilegt á öllu málfari barnanna og að því búa þau alla ævi,“ segir rithöfundurinn Guðrún Helgadóttir. Nánari upplýsingar um hátíðardagskrá Borgarbókasafnsins á sunnudaginn er að finna á vefnum www.borgarbokasafn.is.