Flutningaskipið Green Freezer verður dregið til Póllands þar sem það fer í slipp. Von er á norskum dráttarbáti til landsins á morgun og mun það draga skipið.
Reiknað er með því að ferðin til Póllands taki hátt í tíu daga, en vegalengdin er um 1.400 sjómílur.
Skipið verður dregið frá Fáskrúðsfirði á morgun eða á sunnudag, en taka þarf mið af veðurspánni áður en lagt er af stað, að sögn Garðars Jóhanssonar, forstjóra Nesskipa.
Talið er að viðgerðin taki um tvær vikur. Stýri skipsins eyðilagðist þegar skipið strandaði og þá er skrúfa þess einnig skemmd.